HÍN sendi í upphafi mánaðar frá sér eftirfarandi ályktun um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Perlu norðursins.
Ályktunin var send mennta- og menningarmálaráðherra.
Ályktun um samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Perlu norðursins
Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) hefur fylgst með undirbúningi að hinni miklu og glæsilegu náttúrusýningu sem Perla norðursins ehf. vinnur að í Perlunni á Öskjuhlíð. HÍN hefur um langan aldur barist fyrir því að komið verði upp sambærilegri sýningu fyrir þjóðina á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Um skeið leit út fyrir að það markmið væri að nást einmitt á þessum stað en þær vonir brugðust. Nú hafa mál þróast á þann veg að Perla norðursins hefur kynnt menntamálaráðherra erindi þar sem Náttúruminjasafninu er boðið upp á formlegt samstarf. Í því felst að Náttúruminjasafninu er boðin ein hæð í Perlunni endurgjaldslaust undir sýningu á eigin vegum. Perla Norðursins mun standa straum af rekstrarkostnaði sem Náttúruminjasafnið hefði af sýningarhaldinu, það er húsaleigu, laun starfsfólks, hita og rafmagn. Kostnaður ríkisins vegna verkefnisins væri bundinn við uppsetningu á sýningu Náttúruminjasafnsins og viðhald hennar.
HÍN telur að þetta sé gott tilboð og öllum í hag bæði ríki og borg, Perlu norðursins og Náttúruminjasafninu og ekki síst almenningi og gestum í landinu. Þótt þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við samning menntamálaráðuneytis og HÍN frá 16. júní 1947, þar sem ráðuneytið fyrir hönd ríkisins tók við safnmunum Náttúrugripasafnsins gamla með fyrirheitum um sýningaraðstöðu og fleira, telur félagið að þetta sé skref í rétta átt. Mikilvægi Náttúruminjasafnsins sem fræðslu- og menntastofnunar er það mikið að ekki má láta þetta tækifæri sér úr greipum ganga. HÍN hvetur því menntamálaráðherra eindregið til að ganga að þessu góða tilboði og hefja samstarf við Perlu norðursins og greiða þannig leið Náttúruminjasafnsins til sýningarhalds og þeirra umsvifa sem lög gera ráð fyrir.
1. ágúst 2016
F.h. stjórnar HÍN
Árni Hjartarson