Súrnun sjávar frá fjöru niður í djúpsævi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. september 2016 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Hrönn Egilsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Súrnun sjávar frá fjöru niður í djúpsævi.

Ágrip af erindi

“Á heimsvísu er aukning á koldíoxíði (CO2) í sjó að valda súrnun sjávar og lækkandi kalkmettun og er því spáð að þessar breytingar munu hafa neikvæð áhrif á fjölda sjávarlífvera þegar fram líða stundir. Hraði þessara breytinga og alvarleiki er þó breytilegur eftir svæðum og búsvæðum innan svæða. Langtímamælingar Hafrannsóknastofnunar sýna að yfirborðssjór í Íslandshafi, norður af landinu, og í Irminger hafi suð-vestur af landinu súrnar hratt miðað við það sem mælingar sunnar í Atlantshafinu gefa til kynna. Þessar breytingar hafa eðlilega vakið upp spurningar um möguleg áhrif á einstakra lífverur og vistkerfi. Innan þessara hafsvæða er þó að finna fjölda búsvæða sem hafa ólíka eiginleika sem geta skipt máli þegar hugað er að getu lífvera til þess að eiga við umræddar breytingar. Sem dæmi, þá sveiflast pH í fjörupollum umtalsvert meira en sú lækkun í pH sem aukið koldíoxíð í andrúmslofti mun skila sjónum. Strandsvæði sýna minni umhverfissveiflur en fjörur og fjörupollar en þær sveiflur eru þó miklar miðað við áhrif andrúmslofts. Djúpsjórinn er aftur á móti meðal stöðugustu búsvæða í heimi þegar kemur að breytileika í tíma og rúmi.
Í þessu erindi verður fjallað um súrnun sjávar út frá þessum ólíku búsvæðum og velt upp alvarleika þessara breytinga fyrir mikilvæga tegundahópa út frá stöðu þekkingar í dag.
Eru fundargestir hvattir til umræðu um möguleika lífvera á að takast á við súrnun sjávar og aðrar umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland því öll kurl eru langt frá því að vera komin til grafar.”

Hrönn er þessa dagana að leggja lokahönd á doktorsritgerð sína sem fjallar um líffræðileg áhrif súrnunar sjávar út frá mismunandi búsvæðum. Doktorsnámið hefur farið fram hjá Háskóla Íslands (Jarðvísindadeild) og Hafrannsóknastofnun. Hrönn lauk meistaraprófi frá Háskólanum í Plymouth (University of Plymouth) Englandi árið 2008 þar sem hún rannsakaði samverkandi áhrif aukins koldíoxíðs og seltu á marflær.