Hafsbotnsjarðfræði og kortlagning íslenska landgrunnsins

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 31. október 2016 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það eru jarðfræðingarnir Árni Hjartarson, Anett Blischke, Skúli Víkingsson og Ögmundur Erlendsson sem flytja erindi sem þeir nefna Hafsbotnsjarðfræði og kortlagning íslenska landgrunnsins.

Ágrip af erindi Árna, Anett, Skúla og Ögmundar.

„Jarðfræðirannsóknir og kortlagning á hafsvæðunum við Ísland er verkefni sem unnið er að á Íslenskum orkurannsóknum. Þetta er hluti af stóru Evrópuverkefni sem gengur undir heitinu EMODnet. Verkefninu á að opna aðgang að rannsóknargögnum, samræma þau og setja á veraldarvefinn. Jarðfræðinni er skipt á milli fimm vinnuhópa sem fjalla um berggrunn, botngerð, strandhegðun, hagnýt jarðefni og jarðvá.
Berggrunnskort sýnir berggerð hafsbotnsins. Þar eru nokkrir flokkar svo sem, úthafsskorpa, Íslandsskorpa og meginlandsskorpa. Þar er um að ræða Jan Mayen skorpuflísina fyrir norðan land. Á kortinu sjást líka megineldstöðvar á landgrunninu og sæfjöll.
Annað kort sýnir setlagaþekjuna sem víða hylur berggrunninn. Það sýnir einnig jökulgarða neðansjávar og mestu útbreiðslu jökla á ísöld. Kortlagningin hefur leitt í ljós meiri jöklun og stærri ísaldarjökul en áður var vitað um.
Samhliða þessu er kort sem sýnir aldur berggrunnsins í kring um landið. Þar kemur vel fram hvernig hafsbotninn eldist með aukinni fjarlægð frá gliðnunarbeltunum og athyglisverðar undan¬tekningar frá þeirri meginreglu.
Botngerðarkort er unnið í samvinnu við HAFRÓ, Landhelgisgæslu o.fl. Kortið sýnir efnisgerð hafsbotnsins en miðar einungis við efstu 30 cm yfirborðsins. Það sýnir 7 botngerðarflokka. Botngerðin hefur áhrif á vistkerfin og þekking á henni er mikilvæg í líffræðirannsóknum og fiskifræði.
Strandhegðunarkort sýnir breytingar á ströndum landsins gegn um tíðina, rof og ágang sjávar, jafnvægisástand eða setmyndun og framsókn strandlínunnar.
Vákort sýnir eldstöðvarkerfi, gossprungur, gosgíga, misgengi og sniðgengi, hraunjaðra í sjó, neðansjávars¬kriður og berghlaup og skjálftavirkni.
Jarðefnakortið sýnir staðsetningu og útbreiðslu hagnýtra jarðefna á hafsbotni. Sýnd er útbreiðsla sand og malarlaga, einnig kalkþörungalög, svo og útfellingar sem tengjast neðansjávarjarðhita, bæði lághitaútfellingar og háhitaútfellingar.
EMODnet verkefnið hefur leitt í ljós ýmislegt sem nýstárlegt má teljast í jarðfræði Íslands enda hefur margt í jarðfræði landgrunnsins og nálægra hafsvæða ekki verið kortlagt af sambærilegri nákvæmni fyrr.“

Höfundarnir (Árni Hjartarson, Anett Blischke, Skúli Víkingsson og Ögmundur Erlendsson) eru jarðfræðingar og sérfræðingar á sviði hafsbotnsrannsókna og jarðfræðikort¬lagningar. Þeir hafa allir starfað á Íslenskum orkurannsóknum um árabil að fjölþættum verkefnum innanlands og utan. Á síðari árum hefur rannsóknarvettvangurinn færst út fyrir ströndina og út á landgrunnið og úthafsbotninn.