Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. nóvember 2016 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er bókmenntafræðingurinn Viðar Hreinsson sem flytur erindi sem hann nefnir Náttúrufræðingurinn Jón lærði?.
Ágrip af erindi Viðars.
„Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) er einn sérkennilegasti Íslendingur sögunnar, bóndi og sjómaður, skáld og listamaður, galdramaður og læknir. Hann var líka andófsmaður og fyrsti rannsóknarblaðamaðurinn. Hann skrifaði fyrsta ritið sem varðveitt er á íslensku um náttúru landsins og því má spyrja hvort óhætt sé kalla hann fyrsta íslenska náttúrufræðinginn.
Í erindinu verður stiklað á litríkum æviferli Jóns, sagt frá helstu verkum hans og greint frá þeirri bókmenningu og blóðrás handrita sem hann bjó við og mótaði hugsun hans. Þannig er dregið upp baksvið fyrir nánari umfjöllun um náttúruskoðun Jóns sem birtist í verkum hans ýmist í brotum eða heildstætt. Rætt verður um heimsmynd hans, steinafræði og læknislist og loks eiginleg rit hans um náttúrufræði; sérstakt rit um fugla, rit um grasanáttúrur og loks rit sem ber titilinn „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“. Umfjöllunin verður í samhengi við merkingu orðsins náttúra, hugmyndasögu og heimsmynd endurreisnarinnar þar sem allt hafði merkingu í víðara samhengi sem í senn var siðferðislegt, dulrænt og trúarlegt. Í framhaldi af því verður rætt um þróun mælinga og vísindabyltinguna sem var í gerjun á dögum Jóns. Lauslega verður drepið á hvernig náttúruþekking birtist í fornritum og fjallað um önnur rit úr samtíma Jóns um náttúrur landsins en erindinu lýkur með viðleitni til að svara þeirri spurningu hvort hann hafi verið fyrsti náttúrufræðingurinn og hvort eitthvað megi læra af afstöðu hans til náttúrunnar, þekkingarfræði hans og siðferðislegu samhengi þekkingarinnar.“
Viðar Hreinsson er sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur. Hann unnið að fjölda rannsóknarverkefna sem tengjast íslenskri bókmennta- og menningarsögu, birt fjölda fræðigreina og ritað þrjár ævisögur. Ævisaga hans um Stephan G. Stephansson, sem einnig er til í enskri gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun bæði á Íslandi og vestanhafs. Undanfarin ár hefur hann einkum sinnt umhverfishugvísindum og ný bók hans um Jón lærða, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er viðamesti afraksturinn af þeirri vinnu. Verk Viðars um Jón lærða hefur sl. tvö ár verið unnið í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands þar sem hann hefur haft aðstöðu.