Aðalfundur HÍN 2017

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 27. febrúar 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar flytur Guðrún Larsen vísindamaður emerita við Jarðvísindastofnun Háskólans erindi sem hún kallar „Af framferði jökulhlaupa í Kötlugosum“. Erindið hefst kl. 17:15 og eru allir velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins. Aðalfundarstörf hefjast að loknu erindi Guðrúnar, kl. 18:15.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:
– Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
– Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
– Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
– Önnur mál.

Fyrir hefðbundin aðalfundarstörf mun Guðrún Larsen flytja erindi sem hún kallar „Af framferði jökulhlaupa í Kötlugosum“. Helsta rannsóknasvið Guðrúnar eru eldgos og gossaga á nútíma, einkum sprengigos og gjóskulög. Hún var einn af ritstjórum vefrits um eldstöðvakerfi Íslands, Catalogue of Icelandic Volcanoes, og hvetur HÍN alla til að kynna sér það á vefslóðinni http://icelandicvolcanoes.is/

Í kynningu segir:

Flest eldgos á eldstöðvakerfinu sem kennt er við Kötlu verða í ísfylltri öskju Mýrdalsjökuls. Þetta á við um öll Kötlugos á sögulegum tíma og Eldgjárgosið á 10. öld náði þangað líka. Jökulhlaupin sem þessum gosum fylgdu voru misstór og fóru misjafnlega víða. Eftir Eldgjárgosið hafa meginhlaupin fallið til austurs um Kötlujökul út á Mýrdalssand þótt einhver leki hafi farið um Sólheimajökul niður á Skóga- og Sólheimasand, a.m.k. einu sinni. Í Eldgjárgosinu kom hlaupvatnið víðar fram, enda voru um 15 km (af 75 km) af gossprungunni undir jökli. Fyrir Eldgjárgos fóru jökulhlaupin einnig til vesturs um Entujökul og í Markarfljót. Stærstu hlaupin þar voru af sömu stærðargráðu og Kötluhlaupið 1918, en þá var hámarksrennslið metið um 300 þúsund rúmmetrar á sekúndu.

Kötluhlaup eru blanda af bræðsluvatni, ísstykkjum, krapi og föstu efni s.s. ösku, vikri, bergbrotum og jökulaur. Rennslihættir fara eftir hve mikið framburðarefnið er og hlaupin geta rofið gljúfur, hækkað landið sem þau fara yfir svo skiptir mörgum metrum, breytt strandlengju tímabundið eða varanlega, valdið bylgjugangi í tuga kílómetra fjarlægð og breytt nýtingarmöguleikum stórra svæða, tímabundið eða varanlega. Kötluhlaup eru hættuleg mönnum og farartækjum þeirra og öllu lifandi sem fyrir verður.

Í fyrirlestrinum verða dæmi tekin um jökulhlaup og breytingar af þeirra völdum, bæði frá forsögulegum og sögulegum tíma. Í heimildum eru frásagnir af Kötluhlaupum oft ýtarlegri en frásagnir af Kötlugosunum sem þeim ollu – og það segir nokkuð um tilþrif þessara fyrirbæra. Kötluhlaupin hafa, ásamt Eldgjárgosinu, valdið víðtækustu umhverfisbreytingum sem orðið hafa á landinu á sögulegum tíma.