Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. mars 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er plöntuvistfræðingurinn Bryndís Marteinsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi – hvað vitum við í raun mikið?
Ágrip af erindi Bryndísar og meðhöfunda, haldið mánudaginn 27. mars 2017.
“Lengi hefur verið deilt um þau áhrif sem sauðfjárbeit hefur á landið. Á meðan sumir telja beitina vera að mestu sjálfbæra og hafi lítil áhrif á landgæði, tengja aðrir beit við mikla jarðvegseyðingu og hnignun vistkerfa. En hvað vitum við í raun mikið?
Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður rannsóknar sem kannaði stöðu þekkingar á þessu sviði. Markmiðið var að fá heilstæða mynd af þeim áhrifum sem sauðfjárbeit hefur á vistkerfi íslenskra afrétta. Alls skoðuðu við yfir 300 heimildir sem fjölluðu um beitarmál en aðeins fundust í þeim niðurstöður 16 rannsókna, frá 53 svæðum. Flestar rannsóknirnar skoðuðu áhrif beitar á gróður, nokkrar lýstu áhrifum beitar á jarðvegsþætti og ein rannsókn skoðaði áhrifin á jarðvegsskordýr. Samantekt á niðurstöðunum þessara rannsókna sýna greinilega að sauðfjárbeit hefur áhrif á uppbyggingu plöntusamfélaga og eykur þekju auðrar jarðar sem gerir svæði viðkvæmari fyrir jarðvegsrofi.
Þrátt fyrir að stór hluti landsins sé nýttur undir sauðfjárbeit, höfum við í raun mjög takmarkaða vísindalega þekkingu á áhrifum þessarar nýtingar á umhverfið. Nær engar rannsóknir hafa verið gerðar með það að markmiði að kanna beitarþol ólíkra vistkerfa og því ómögulegt að svara þeirri spurningu hversu mikla beit hvert landsvæði þolir. Ef við ætlum að stunda sjálfbæra sauðfjárrækt, þar sem beitin er aðlöguð aðstæðum á hverju svæði, er nauðsynlegt að auka til muna beitarrannsóknir á Íslandi.”
Höfundarnir (Bryndís Marteinsdóttir, Isabel C. Barrio og Ingibjörg Svala Jónsdóttir) eru plöntuvistfræðingar sem starfa við Háskóla Íslands. Bryndís og Isabel eru nýdoktorar við Líf- og umhverfisvísindastofnun og Ingibjörg Svala er prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Höfundarnir hafa allir starfað við rannsóknir seinustu ár um áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi.
Í Mývatnssveit eru áhrifin mjög mikil,(búið hér í yfir 40 ár) auðvelt er að sjá þau t.d. þar sem land hefur verið friðað fyrir beit í 20 ár eða meir – t.d. víðitegundir taka þá að gægjast úr jörð og gróðurþekjan gjörbreytir um svip. Þar sem er smá jarðvegsrof grefur sauðkindin sig gjarnan inn í barð eins og væri hún moldvarpa þannig margfaldast rofið að umfangi. Ég sé á malbornum vegi nærri heimili mínu að kindur grafa sig jafnvel niður í mölina af ótrúlegri áfergju og seiglu Það er eitthvað við rof í landi sem kindin laðast í-þar vilja þær hvílast. Sem betur fer er gróðureyðing ekki allstaðar til eru svæði þar sem beitarálag hefur dregist verulega saman vegna fækkunar. Þar verður ánægjuleg gróðurfarsbreyting sjáanleg eftir ekki svo mörg ár. Ég vil svo segja við ykkur að lokum: Hver einasta sauðkind ætti að vera alfarið inni í beitarhólfi – frjáls umferð kinda um afrétt er óásættanleg meðferð á landinu okkar miðað við hversu nú er orðið einfalt mál að girða af beitarhólf – nú eða landsvæði sem þarfnast friðunar.