Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. apríl 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er fiskifræðingurinn Anna Heiða Ólafsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Fjölþjóðarannsóknir á uppsjávarvistkerfi norðaustur Atlantshafs: tæki, tól og tilgangur
Ágrip af erindi Önnu, haldið mánudaginn 24. apríl 2017.
„Fiskar eiga ekki vegabréf en ferðast samt þúsundir km árlega þvert á lögsögur margra landa. Þetta á sérstaklega við um uppsjávarfiska í NA-Atlantshafi sem margir hegða sér svipað og farfuglar. Þeir ganga í norðurátt á sumrin í ætisleit og ganga svo suðureftir á haustin til vetursetu og hrygningar. Algengir uppsjávarfiskar við Ísland hafa því víðfeðma útbreiðslu sem nær norður til Svalbarða og suður til Gíbraltar, og frá strönd meginlands Evrópu til austurstrandar Grænlands. Vegna aflaverðmætis uppsjávarfiskistofna er nauðsynlegt að mæla stofnvísitölu þeirra árlega. Það er gert með fjölþjóðarannsóknaleiðöngrum þar sem margar þjóðir og enn fleiri skip mæla viðkomandi stofn samtímis í NA-Atlantshafi. Undanfarin ár hafa þessir leiðangrar þróast í að verða vistkerfisleiðangrar, auk þess að meta magn fiska er umhverfisástand, þörungar og átumagn mælt og jafnvel hvalir taldir. Síðan 2010, hefur Hafrannsóknastofnun á hverju ári í júlí tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknaleiðangri sem kallast „International Ecosystem Summer Survey in Nordic Seas“ ásamt Norðmönnum, Færeyingum og Grænlendingum. Aðalmarkmið leiðangursins er að meta stærð makrílstofnsins en einnig er magn annarra fiskistofna metið og ýmsir aðrir þættir í vistkerfinu mældir. Sagt verður frá þróun þessa leiðangurs frá 2010 til 2017, leiðangursáætlun fyrir árið í ár og því hvernig þau gögn sem safnað er í leiðangrinum, eru ekki einungis notuð við stofnmat heldur einnig sem efniviður í doktorsverkefni og vísindagreinar. Að lokum verður talað um frumniðurstöður rannsókna á því hvers vegna makríll byrjaði að leita inní íslenska lögsögu upp úr 2007.“
Dr. Anna Heiða Ólafsdóttir er fiskifræðingur á uppsjávarlífríkissvið Hafrannsóknastofnunar þar sem hún ber ábyrgð á makríl- og kolmunnarannsóknum. Anna lærði fiskifræði við Memorial Háskóla á Nýfundnalandi, Kanada, og lauk þaðan bæði masters- og doktorsprófi. Frá Kanada lá leið hennar til Færeyja þar sem hún vann á færeysku hafrannsóknastofnuninni í nokkur ár áður en hún fluttist aftur til Íslands.