Greinasafn eftir: Hið íslenska náttúrufræðifélag

Ritstjórnarstefna Náttúrufræðingsins

Á árinu lauk stjórn við að endurskoða ritstjórnarstefnu Náttúrufræðingsins og er hún nú aðgengileg hér á heimasíðunni undir flipanum Náttúrufræðingurinn. Endurskoðuð stefnan var samþykkt af stjórn félagsins og í sumar send bæði ritstjórn Náttúrufræðingsins og forstöðumanni Náttúruminjasafns Íslands til umsagnar en NMSÍ styrkir útgáfu ritsins til helminga á móti félaginu.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins – laust starf til umsóknar

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) og Náttúruminjasafn Íslands (NMSÍ), sem í sameiningu gefa út tímaritið Náttúrufræðinginn, auglýsa hér með starf ritstjóra laust til umsóknar. 

Náttúrufræðingurinn er fræðslurit um náttúrufræði þar sem áhersla er lögð á efni sem byggir á athugunum og rannsóknum á náttúru Íslands. Tímaritið hefur komið út samfleytt síðan 1931, eða í 90 ár. Fjögur hefti (tvö tvöföld) eru að jafnaði gefin út á ári og er hver árgangur um 160 blaðsíður. Hluti greinanna er ritrýndur en einnig er um að ræða ritstýrðar greinar, efni fyrir yngri sem eldri lesendur, þ.m.t. nemendur grunn- og framhaldsskóla, gagnrýni og ritfregnir svo dæmi séu tekin úr ritstjórnarstefnu ritsins.

Frá og með næsta ári mun tímaritið verða í opnum aðgangi auk prentaðrar útgáfu. Auk þessa verður annað efni eingöngu aðgengilegt á vef Náttúrufræðingsins, í anda ný samþykktrar ritstjórnarstefnu, og verður umsjón með vefnum einnig á herðum ritstjóra.

Hið íslenska náttúrufræðifélag (hin.is) eru frjáls félagasamtök, stofnuð 1889, sem m.a. vinna að því að efla áhuga almennings á náttúru Íslands, miðla náttúrurannsóknum og koma á framfæri fróðlegu efni um náttúrufræði og umhverfismál. Náttúruminjasafn Íslands (nmsi.is), sem var stofnað 2007, er eitt þriggja höfuðsafna landsins og heyrir til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Helstu verkefni

  • Umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins. Það felur í sér að funda og vinna með ritstjórn tímaritsins, afla efnis fyrir ritið, tryggja fagleg gæði efnis og ritrýni, greinaprófarkalestur, umbrot, prentun og dreifingu.
  • Vefumsjón með efni Náttúrufræðingsins á nýrri vefsíðu (natturufraedingurinn.is) sem ætluð er öllum þeim sem áhuga hafa á náttúrufræðum, umhverfis- og náttúruvernd;  þ.m.t. ungum lesendum.
  • Umsjón með efni eingöngu ætlað fyrir vefútgáfu, afla efnis og tryggja fagleg gæði þess. 

Hæfniskröfur

  • Þekking og reynsla af ritstjórn og vefumsjón er nauðsynleg.
  • Ritfærni og góð kunnátta í íslensku og ensku er nauðsynleg.
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, helst meistaragráða, og góð þekking í náttúrufræðum er nauðsynleg.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í starfi.

Kaup og kjör

Um er að ræða 80% starf með möguleika á aukningu á starfshlutfalli. Starfsaðstaða og búnaður er á skrifstofu Náttúruminjasafnsins. Laun taka mið af stofnanasamningi Náttúruminjasafnsins og viðeigandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. janúar nk., eða samkvæmt samkomulagi.

Umsókn

Umsóknarfrestur er til 15. desember nk.

Umsóknum skal fylgja greinargott kynningarbréf ásamt ferilskrá þar sem fram koma upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjanda auk upplýsinga um tvo meðmælendur.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. 

Sjá nánar á Starfatorgi stjórnarráðsins


HIN_logo_m_texta

Plöntupressur

Plöntupressur eru einfaldar en ótrúlega þægilegar að hafa. Þær er hægt að útbúa úr tveimur fjölum sem er haldið saman með tveimur borðum eða reipisbútum sem auðvelt er að strekkja vel til að halda góðri pressu á plöntunum. Svo þarf bara að gæta þess að skipta nógu oft um þerripappír því plöntur sem þorna of hægt geta orðið svartar.

Plöntupressupappír er frekar sérstakur að gerð og sérstaklega til þess fallinn að þurrka plöntur. Hann má nota út í hið óendanlega ef vel er farið með hann. Hjá Lundarháskóla þar sem ég starfa, er stranglega bannað að setja plönturnar beint á pappírinn heldur þarf að setja plönturnar milli dagblaða eða eins og ég geri, á venjulegan prentarapappír. Hér er svo pressupappírinn settur í þurrkofn eftir notkun og lítið herbergi helgað plöntupressun og því sem henni tilheyrir.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er ég í þetta sinn bara að pressa stök blöð en það er auðvitað ekki vaninn ef plöntum er safnað. Hins vegar hafa plönturnar mínar ekki enn þjónað sínum tilgangi eru því áfram í ræktun. Venjulegur prentarapappír er sýrufrír og því upplagður fyrir plöntupressun. Sömuleiðis gerir hann það auðveldara að pressa plönturnar fallega þar sem papprírinn er það sléttur og sleipur.

Með einföldum tein, í þessu tilviki steyputein, strekkir maður á reipinu til að ná góðri pressu. Svo rekur maður teininn lengra í gegn þar til hann nemur við borðið til að pressan haldist. Eins og sjá má á slitnu neðra borði þar sem reipið liggur hefur pressan verið mikið notuð.

Gróa Valgerður Ingimundardóttir
27. maí 2021

Aðalfundur HÍN og fræðsluerindi 25. febrúar

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags fimmtudaginn 25. febrúar á Zoom. Fyrir dagskrá aðalfundar heldur Bryndís Marteinsdóttir erindið Gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands: Ástand og nýting. Erindið hefst klukkan 19:00 en dagsskrá aðalfundar hefst kl. 20:00. Tengill á fundinn verður gefinn út þegar nær dregur.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:

•    Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
•    Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
•    Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
•    Önnur mál.

Stjórn leggur til lagabreytingu í tilefni af tilkomu faghópa innan félagsins:

7. grein. Aðalfund félagsins skal halda í febrúar ár hvert, og skal dagskrá hans vera sem hér segir:

a. Skýrt frá helstu framkvæmdum á liðna árinu.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Kosin stjórn og formenn faghópa, tveir skoðunarmenn reikninga og einn skoðunarmaður til vara.
d. Önnur mál.

Stjórn HÍN skipa nú eftirtaldir: Ester Rut Unnsteinsdóttir formaður, Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður, Gróa Valgerður Ingimundardóttir ritari, Snæbjörn Guðmundsson gjaldkeri, Helena Óladóttir fræðslustjóri, Anna Heiða Ólafsdóttir félagsvörður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi.

Almennir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sem og formaður. Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna er nú á enda og er nú kosið um þessi embætti.  Þetta eru embætti Hrefnu Sigurjónsdóttur, Bryndísar Marteinsdóttur og Gróu Valgerðar Ingimundardóttur. Hrefna og Gróa Valgerður gefa áfram kost á sér en Bryndís Marteinsdóttir mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.