Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Flóruvinir komnir úr óheppilegu sumarleyfi

Því miður þurfti starfsemi Flóruvina að liggja í láðinni yfir sumarið en fór þó aftur í gang í rólegheitunum í síðasta mánuði, passlega þegar flest var sölnað fyrir veturinn. Facebook hópur Flóruvina hélt þó áfram að vaxa en þarf nú örlítið fastari tök þar sem einhver tröll voru farin að vaða þar uppi með efni sem ekkert hafði með plöntur að gera. Það horfir þó allt til betri vegar!

Eitt fyrsta verk eftir leyfið var annars vegar að herða á stillingum í Flóruvinahópnum á Facebook en því næst var það ársfundur norrænu grasafræðifélaganna og verður nánar greint frá honum næstu daga.

Hins vegar er engin ástæða til að hætta að sinna grasafræðinni þó kominn sé vetur, samanber meðfylgjandi mynd sem var tekin fyrir sléttum 13 árum á Reyðarfirði!

Krossfífill (Senecio vulgaris) á Reyðarfirði þann 9. nóvember 2009.

Aðalfundi lokið og ný stjórn tekin við

Aðalfundur félagsins var haldinn í gær, 28. febrúar í Krummasölum Náttúrufræðistofnunar, auk þess að vera streymt. Aðalfundargerð má nálgast hér á heimasíðunni.

Á fundinum voru kosnir þrír nýjir stjórnarliðar sem við bjóðum hjartanlega velkomna og í kvöld fundaði nýja stjórnin auk fráfarandi ritara, Gróu Valgerði Ingimundardóttur. Það er ekki laust við að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt að sjá stjórnina fullskipaða en hún hefur verið fámenn nú um nokkurt skeið. Stjórnin skipti með sér verkum í kvöld og varð verkaskiptingin eftirfarandi:

Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður, endurkjörin til tveggja ára 2022
Hrefna Sigurjónsdóttir, varaformaður, endurkjörin til tveggja ára 2021
Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri, kosin til tveggja ára 2022
Hrefna Berglind Ingólfsdóttir, ritari, kosin til eins árs 2022
Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður, endurkjörin til tveggja ára 2022
Helena W. Óladóttir, fræðslustjóri, endurkjörin til tveggja ára 2022
Hlín Halldórsdóttir, meðstjórnandi, kosin til eins ár 2022

Þess má geta að þetta er fyrsta stjórnin sem einungis er skipuð konum frá stofnun félagsins árið 1889. Þær voru líklega nokkrar stjórnirnar í upphafi sem einungis voru skipaðar körlum en svona vildi þetta til í þetta sinn. Hins vegar er rétt að halda því til haga að báðir skoðunarmenn reikninga eru karlmenn, þeir Sveinbjörn Egill Björnsson og Steinþór Níelsson, auk þess sem það eru fjórir karlar sem sitja nefnd Flóruvina þó forsvarsmaðurinn sé kona en Gróa Valgerður var endurkjörin í þá stöðu í gær.