Leiðari: Ritstjóraskipti og Náttúruminjasafn

Leiðari: Ritstjóraskipti og Náttúruminjasafn

Kristín Svavarsdóttir

Bls: 3 1. hefti 75. árg. 2007
Náttúrufræðingurinn á sér orðið langa sögu. Tímaritið hefur komið út frá árinu 1931, þegar dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur og dr. Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur hófu útgáfu þess. Tíu árum síðar keypti Hið íslenska náttúrufræðifélag ritið og hefur gefið það út síðan, í seinni tíð sem félagsrit sitt. Tímaritið gegnir nú sem fyrr mikilvægu hlutverki, bæði sem fagtímarit þar sem íslenskir náttúrufræðingar geta lagt rannsóknaniðurstöður sínar fram á móðurmálinu og sem vettvangur fyrir almennan fróðleik um náttúrufræði. Að sjálfsögðu hefur Náttúrufræðingurinn breyst mikið á rúmlega sjötíu ára ævi sinni enda miklar breytingar orðið í þjóðfélaginu á þessum tíma. Síðasta stórbreytingin varð árið 2002 er útliti tímaritsins var breytt; m.a. var brot þess stækkað til að koma til móts við breyttar þarfir og nýja tækni hvað varðar myndir og gröf. Það er ljóst að vel heppnuð útgáfa tímarits er háð góðu fólki sem tekur þátt í útgáfu þess og hefur félagið verið svo lánsamt að hafa stóran hóp fólks sem unnið hefur við útgáfuna í gegnum árin, bæði ritstjórnarmeðlimi og ritstjóra. Að baki hverju hefti Náttúrufræðingsins liggur mikil vinna margra aðila, allt frá höfundum, ritstjórn og yfirlesurum, til ritstjóra sem ber hitann og þungann af útgáfunni. Frá upphafi hafa 17 ritstjórar starfað við Náttúrufræðinginn og með síðasta hefti í lok árs 2006 lét sá ritstjóri af störfum sem hefur starfað einna lengst við útgáfuna. Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur og blaðamaður, tók við Náttúrufræðingnum af Sigmundi Einarssyni jarðfræðingi árið 1997 og stýrði útgáfunni í áratug. Náttúrufræðingurinn dafnaði vel á þessu tímabili og tók Álfheiður þátt í að breyta útliti ritsins sem áður var nefnt. Ég vil fyrir hönd stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags þakka Álfheiði vel unnin störf í þágu tímaritsins og félagsins undanfarinn áratug. Eins vil ég nota tækifærið og óska nýjum ritstjóra, Hrefnu B. Ingólfsdóttur, velfarnaðar í starfi.

Það hefur oft reynst erfitt að halda úti fjórum heftum Náttúrufræðingsins á ári eins og til er ætlast og því hefur útgáfan oft orðið fyrir seinkunum og verið á eftir áætlun. Því miður er tveggja ára seinkun nú og leggur stjórn félagsins mikla áherslu á að reyna að vinna hana upp. Við ritstjóraskiptin ákvað stjórnin að setja af stað átaksverkefni sem felur í sér að Náttúrufræðingurinn komi tíðar út á næstu árum. En það er ekki nóg að aðstandendur tímaritsins séu allir af vilja gerðir – við setjum traust okkar á höfunda til að þetta megi takast. Ég vil því hvetja alla náttúrufræðinga sem luma á góðu efni að vera duglegir að skrifa, því með samstilltu átaki er ég sannfærð um að við getum náð takmarkinu.

Enda þótt Náttúrufræðingurinn hafi verið einna fyrirferðarmestur í starfsemi Hins íslenska náttúrufræðifélags í seinni tíð hefur eitt helsta markmið félagsins frá upphafi verið að koma upp náttúrugripasafni. Það er ótrúlegt að rík þjóð eins og Íslendingar skuli ekki vera búin að byggja yfir og treysta enn frekar það náttúrugripasafn sem áhugamannafélag gaf henni fyrir 60 árum. Þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf ríkinu safnið árið 1947 fylgdi því byggingarsjóður og var gert ráð fyrir að ríkið byggði yfir safnið. Nú 60 árum síðar er safnið í óviðunandi ástandi og þarf vart að rifja það upp eftir mikla umfjöllun í fjölmiðlum síðustu mánuði. Á haustþingi lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fram frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands. Með gildistöku þeirra laga verður safnið eitt þriggja höfuðsafna Íslendinga, ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands. Stjórn félagsins telur brýnt að lögin verði samþykkt sem fyrst þannig að hefja megi öflugt starf við skipulag og uppbyggingu safnsins. Það er afar mikilvægt að uppbygging glæsilegs safns verði nú að veruleika og við upplifum ekki enn einu sinni síendurtekin vonbrigði 20. aldar, því í harmasögu náttúrugripasafnsins hefur oftar en einu sinni verið búið að úthluta lóð og allt bent til þess að sigur væri í höfn þegar eitthvað kom upp á sem stöðvaði málið. Ég hvet alla sem að málinu koma til að stefna að því að á árinu 2007, á 60 ára afmæli gjafar Hins íslenska náttúrufræðifélags, verði lokið við formlegar hliðar málsins þannig að unnt verði að hefja framkvæmdir svo veglegt safn verði opnað á 120 ára afmæli Náttúrugripasafnsins og Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 2009.

Á langri ævi félagsins hefur það átt marga velunnara. Rétt fyrir sl. jól barst því rausnarleg gjöf frá einum ævifélaga sínum, Sigurði Bjarnasyni sem búsettur er í Noregi. Tölvufyrirtæki Sigurðar og eiginkonu hans, Paritet AS, hefur það í stefnu sinni að verja hluta hagnaðar til styrkja, þar af helmingnum til menningarmála. Árið 2006 ákvað Sigurður að styrkja Hið íslenska náttúrufræðifélag vegna þess hve félagið og Náttúrufræðingurinn hefðu veitt honum mikla ánægju allt frá því að hann var drengur. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka þessa höfðinglegu gjöf.