Línrækt og hörvinnsla fyrr á tímum
Sturla Friðriksson
Bls: 7–12 1. hefti 75. árg. 2007
INNGANGUR
Lín mun hafa verið ræktað á Íslandi á landnámsöld og nokkuð fram eftir fyrstu öldum byggðar í landinu. Ræktun þess lagðist síðan af þegar auðvelt var að fá líndúka erlendis frá, en á 18. öld var reynt að endurvekja þessa ræktun. Árið 1752 voru sendir hingað 14 jóskir og norskir ræktunarmenn til að kenna Íslendingum kornrækt til viðreisnar íslenskum landbúnaði. Áttu þeir að vera hér í 8–10 ár en flestir dvöldu hér aðeins 2 ár. Auk kornræktar reyndu þeir einnig línrækt á nokkrum stöðum. Tókst sú ræktun ágætlega vel, en fáir landsmenn munu hafa leikið hana eftir. Á seinni árum hafa áhugasamar vefnaðarkonur einstaka sinnum ræktað hér lín eða spunahör í smáum stíl og tekist afbragðsvel. Plöntutegundir þær sem hér um ræðir eru af línætt (Linanaceae). Spunalínið (Linum usitatissimum) er með um eins metra háum beinvöxnum stöngli, fimm bláum krónublöðum og fimm grænum bikarblöðum. Villilín (L. catharicum) vex villt hér á landi og er víða að finna á Suður- og Suðvesturlandi, við Breiðafjörð, Eyjafjörð og á Austurlandi. Það er mun lágvaxnara en spunalín, með gagnstæðum, lensulaga blöðum. Krónublöðin eru hvít, fimmdeild í gisnum kvíslskúf, og bikarblöðin græn að lit og skarpydd.