Náttúrufarsannáll 2006
Árni Hjartarson og Droplaug Ólafsdóttir
Bls: 73–76 1.–2. hefti 76. árg. 2007
VEÐUR
Árið 2006 hófst með mildum blæ, jörð var þá að mestu auð á láglendi og snjólétt var allan janúarmánuð. Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar sést að sama hæglætistíðin hélst út febrúar og fram í miðjan mars og snjór náði ekki að festa sig í sessi í byggð. Upp úr 20. mars kólnaði og jörð hvítnaði og þannig hélst veðrátta fram yfir páska, en þeir voru um miðjan apríl. Þá var sæmilegur skíðasnjór á helstu skíðasvæðum landsmanna, nema í Bláfjöllum, en skíðavertíðin þótti þó víðast ansi stutt.
Maí hófst með hlýjum andvara og fuglasöng og hiti fór víða upp fyrir 20 gráður á daginn. Upp úr miðjum mánuði breytti snögglega til og gerði harðasta vorhret með norðanstrekkingi og fannkomu í útsveitum norðanlands. Þar snjóaði uppstyttulítið í heila viku og iðulega fylgdi stormur með. Fuglasöngur hljóðnaði og varp misfórst meira eða minna hjá þeim tegundum sem byrjað höfðu snemma. Lambfé var tekið á hús og raunar allt sauðfé, jafnvel hross. Ótíðinni linnti í síðustu viku mánaðarins og þá sjatnaði snjórinn hratt. Sumarið og haustið voru síðan nálægt meðallagi hvað viðkom hita og úrkomu.
Desember skartaði fjölbreytilegu tíðarfari. Fyrsta vikan var mild og snjólaus að mestu á láglendi. Síðan frysti um land allt og snjóaði töluvert. Um 20. desember hlýnaði snögglega og gerði asahláku, snjórinn hvarf á fáeinum dögum en miklir vatnavextir urðu um land allt. Einna mestir urðu vatnavextirnir í Hvítá í Árnessýslu sem flæddi yfir bakka sína og færði víðáttumikið flatlendi á Skeiðum á kaf. Bæir einangruðust, svo sem Ólafsvallahverfið og bærinn Útverk, sem stóð á örlítilli eyju í víðáttuhafi. Rennslið í Ölfusá við Selfoss er talið hafa verið um 1750 m3/s og hefur ekki orðið meira frá flóðinu mikla 1968. Það flóð var að vísu mun meira en því ollu m.a. jakastíflur í ánni sem ekki var fyrir að fara nú. Mikil flóð urðu einnig í Héraðsvötnum en þau ollu litlu tjóni. Í Eyjafirði féllu skriður úr fjöllum og ollu stórtjóni, svo sem sagt er frá í skriðukaflanum.
JÖKLAR
Jöklar héldu áfram að rýrna eins og undanfarin ár, þó ekki alveg án undantekninga. Að sögn Odds Sigurðssonar hjá Vatnamælingum OS gekk t.d. Hyrningsjökull, sem er einn af skriðjöklum Snæfellsjökuls, fram um nokkra metra. Aðrir jöklar sem gengu fram eru austasta hornið á Skeiðarárjökli, Svínafellsjökull og Heinabergsjökull. Reykjafjarðarjökull í Drangajökli hefur ekki enn lokið framhlaupi sínu og hnikaðist lítið eitt fram en mun þó vera að komast í þrot með það. Hlaup kom úr báðum Skaftárkötlum á árunu, úr þeim vestari í apríl en sá eystri hljóp 26. sept.–8. okt. Merkar rannsóknir voru gerðar í eystri katlinum sumarið 2006 en þá var borað í gegnum ísinn og niður í lónið þar undir. Íshellan reyndist um 300 m þykk en rúmlega 100 m djúpt lón var þar undir. Sýni voru tekin úr jökulvatninu og síritar skildir eftir í holunni. Rannsóknum þessum er ólokið.
SKRIÐUFÖLL OG GRJÓTHRUN
Halldór G. Pétursson, jarðfræðingur og skriðusérfræðingur á Akureyri, segir eftirfarandi um atburði ársins 2006:
Ekki er hægt að segja að mikið hafi verið um skriðuföll fyrr en undir lok ársins þegar miklir atburðir urðu á sunnanverðu Eyjafjarðarsvæðinu. Annars var aðallega um að ræða grjóthrun, fyrst og fremst í Óshlíð og annars staðar á Vestfjörðum og staðbundnar aurskriður í tengslum við úrhellisrigningar. Af einstökum tilvikum má geta um mikið grjóthrun þann 10. febrúar, þegar stór björg og grjótskriður féllu úr fjallinu ofan við bæinn Steina undir Eyjafjöllum. Þá urðu töluverð skriðuföll í rigningum, 7.–8. janúar úr Valahnjúk í Þórsmörk, 6. júlí í Hrafnkelsdal og í Siglufirði og Fljótum 28.–29. ágúst. Í tengslum við síðastnefnda tilvikið og áframhaldandi haustrigningar varð í september vart við töluverðar hreyfingar á sigsvæðinu sem Siglufjarðarvegur liggur um á Almenningum í Fljótum. Þá má einnig nefna grjóthrun og skriður við Ísafjarðardjúp og á Ströndum í tengslum við vorleysingar og rigningar í júnímánuði, en þá féllu m.a. aftur og aftur skriður úr sama gilinu í Gleiðarhjalla í Eyrarfjalli ofan við Ísafjarðarkaupstað. En skriðuföll geta orðið víðar en á landsbyggðinni, því þetta árið er getið um grjóthrun á Grafarvogssvæðinu í Reykjavík, en þar hrynur alltaf af og til úr klettum ofan við Sævarhöfða þannig að slysahætta getur skapast á götunni.
Mestu skriðuföllin á árinu urðu aftur á móti við sunnanverðan Eyjafjörð dagana 20. og 21. desember. Þessi skriðuföll urðu í kjölfar þess að snögglega hlýnaði mikið í hvassri sunnanátt eftir langan snjóa- og kuldakafla. Undir þykku snjólagi leyndist þíð jörð þar sem vatn hripaði auðveldlega niður þannig að jarðvegur og jarðlög urðu fljótt vatnsósa, sérstaklega þegar til viðbótar við leysinguna tók að rigna mikið. Af þessu leiddi að mikil flóð og vatnavextir urðu í öllum ám og lækjum á svæðinu og orsökuðu m.a. stíflurof við Djúpadalsárvirkjun og hlaup úr uppistöðulóni, en fljótlega tóku auk þess skriður og einstaka krapaflóð að falla. Mest kvað að skriðuföllum í Eyjafjarðardal, Djúpadal, Öxnadal og Hörgárdal en auk þess í Eyrarlandshálsi ofan við Akureyri. Þetta eru þau svæði þar sem mest úrkoma féll aðfaranótt 20. desember en auk þess féllu stakar skriður á öllu sunnanverðu Eyjafjarðarsvæðinu. Flestar féllu skriðurnar snemma morguns 20. desember en vegna þess hve vatnsósa jarðvegur og jarðlög voru orðin af öllu þessu leysingar- og rigningarvatni féllu af og til skriður þar til kólnaði að morgni 21. desember. Mesta athygli vöktu skriðuföllin við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðardal en þar féllu 35–40 stórar og litlar skriður á um 3 km löngum kafla. Af öðrum skriðum má nefna mjög stóra skriðu sem féll niður fjallshlíðina rétt utan við eyðibýlið Kolgrímastaði í Eyjafjarðardal og þá féllu einnig stórar og áberandi skriður við Steinsstaði og Bakka í Öxnadal. Fjöldi skriðna féll einnig fremst í Hörgárdal, í nágrenni Búðarness, Flögu og Staðarbakka, og þá féll stór og áberandi skriða rétt innan við bæinn Skriðu utar í sama dal. Leysingar á vetri eru ekki óþekkt fyrirbrigði við Eyjafjörð og á Miðnorðurlandi, en sjaldgæft er að falli saman svona miklar leysingar og úrkoma. Svona mikil skriðuföll á þessum árstíma eru ekki þekkt úr heimildum á þessum hluta Eyjafjarðarsvæðisins og verður að fara aftur til ársins 1887 til að finna sambærilegar hamfarir, en þá annars staðar í Eyjafirði.
SKJÁLFTAR
Engin stórtíðindi urðu á skjálftasviðinu. Samkvæmt upplýsingum frá eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands varð öflugasta skjálfta ársins vart rétt austan við Kleifarvatn þann 6. mars og mældist 4,7 stig. Hann fannst víða um Suðvesturland. Skjálftavirkni var hins vegar fremur lítil á Suðurlandi og undir Mýrdalsjökli virtist lítið um að vera miðað við undangengin ár. Hrinan sem þar hófst 1999 og stóð út árið 2004 virðist nú alveg liðin hjá. Undir Vatnajökli var aftur á móti allmikil virkni. Í apríl kom hlaup úr eystri Skaftárkatlinum og í kjölfar þess varð lítil skjálftahrina. Mesta hrinan í Vatnajökli hófst 24. september sunnan Kistufells með skjálfta upp á 4,1 stig en honum fylgdu um 200 eftirskjálftar. Órói var einnig í grennd við Herðubreið, við Herðubreiðartögl sunnan fjallsins og einnig norðan þess.
Skjálfti varð 8 km SA af Flatey þann 1. nóvember. Stærð hans reyndist 4,2 stig og fannst hann víða um Norðurland. Á þriðja hundrað eftirskjálftar mældust næstu daga.
Athyglisverðustu skjálftar ársins urðu við Djúpuvík á Ströndum. Þar varð skjálftahrina dagana 7.–13. september. Alls mældust 22 skjálftar og var sá stærsti 3,5 stig. Þessir skjálftar komu aðeins fram á mælum en fundust ekki. Þetta voru svokallaðir innflekaskjálftar sem urðu fjarri flekaskilum og kunnum skjálftabeltum. Þetta er í fyrsta sinn sem skjálftavirkni hefur orðið vart við Djúpuvík.
REIKISTJÖRNUM SÓLKERFISINS FÆKKAR!
Þótt engin stórmerki bæri fyrir augu á himinhvelinu á árinu 2006 verður það að teljast allmerkilegt í sögu stjörnufræðinnar. Í marga áratugi hafa menn leitað að tíundu reikistjörnunni, sem sumir hafa nefnt X. Nafnið er margrætt og getur bæði táknað hina óþekktu stærð eða niðurstöðu og rómversku töluna 10. Á síðustu missirum hafa fundist allstórir hnettir í útjaðri sólkerfisins og einn þeirra, Eris, er stærri en Plútó. Þessir hnettir líkjast Plútó um margt, ganga á ílöngum brautum og ekki á sama brautarfleti og hinar reikistjörnurnar. Sú krafa var því gerð að Eris og jafnvel fleiri hnettir yrðu viðurkenndir sem fullgildar reikistjörnur. Eftir miklar umræður og deilur í alþjóðasamtökum stjörnufræðinga varð niðurstaðan sú að hafna þessum kröfum en fella Plútó þess í stað úr tölu reikistjarna. Niðurstaðan er sem sé sú að leitin að tíundu reikistjörnunni endaði með því að reikistjörnunum fækkaði úr níu í átta!
Stjörnufræðingar hafa skilgreint nýjan flokk himinhnatta sem kallast dvergreikistjörnur. Til hans teljast Plútó og Eris og auk þeirra Ceres, stærsti hnöttur smástirnabeltisins milli Mars og Júpíters.
GRÓÐURFAR
Gróður tók víða seint við sér og frjókornadreifing fór hægt af stað vegna ríkjandi kulda í mars, apríl og langt fram í maímánuð. Óvenjulegar aðstæður ríktu í upphafi frjótímans í maí, þegar mikill fjöldi frókorna barst til landsins með hlýjum loftmassa frá skógum á meginlandi Evrópu. Dagana 9. og 10. maí mældust því fleiri birkifrjó í Reykjavík en að öllu jöfnu mælast á heilu sumri. Sumarið reyndist að lokum það frjóríkasta í Reykjavík frá upphafi mælinga 1988 og munaði þar mikið um birkifrjóin frá Evrópu. Blómgun grasa var óvenju sein og ekki fór að bera á grasfrjóum í lofti fyrr en í lok júlí og hámarki náðu þau í ágúst. Hlýindi fram eftir hausti gerðu það hins vegar að verkum að grasfrjó mældust í lofti langt fram í september. Óvenjukalt vor norðan heiða hafði þau áhrif að birki blómgaðist ekki fyrr en í lok maí og birkitíminn á Akureyri stóð aðeins yfir í tvær vikur. Grasfrjó voru einnig í lágmarki og þegar upp var staðið reyndist frjómagn í andrúmsloft á Akureyri vel undir meðallagi á árinu.
ÁSTAND SJÁVAR
Hiti og selta í yfirborðslögum sjávar norðan og austan við landið var almennt um meðallag en sunnan við land hélst hvort tveggja áfram vel yfir meðallagi eins og verið hefur undanfarin ár.
SINUBRUNI Á MÝRUM
Miklir þurrkar ríktu á Vesturlandi í lok marsmánaðar og eftir langvarandi þurrka kviknuðu margir sinubrunar þann 30. mars víðsvegar á stóru svæði. Mestur varð bruninn á Mýrum í Borgarfirði. Þar breiddist eldurinn hratt út í þykkum og þurrum sverðinum. Illa gekk að ná tökum á aðstæðum og þegar yfir lauk, aðfaranótt 2. apríl, voru um 70 ferkílómetrar gróins lands sviðin jörð og var bruninn sá allra mesti sem um getur í rituðum heimildum hérlendis. Nokkur uggur vaknaði um áhrifa brunans á lífríkið og þá sérstaklega á gróðursamfélög, smádýralíf og afdrif fugla, enda eru Mýrarnar eitt stærsta votlendi á Íslandi og mikilvægt varplendi margra fuglategunda. Náttúrufræðistofnun var falið að fylgjast með gróðurframvindu og lífríki svæðisins í kjölfar brunans. Fjalldrapi og bláberjalyng fóru illa í brunanum en fyrstu niðurstöður vöktunar dýralífsins bentu til að afleiðingar brunans væru ekki eins miklar og óttast mátti í fyrstu. Smádýr sem söfnuðust í gildrur voru mun fleiri á brunnum svæðum en óbrunnum og þar var fjölbreytileiki tegunda einnig meiri. Er það talið skýrast af því að eftir brunann hafi dýrin ferðast í sverðinum í stað þess að dreifast niður í sinuna. Þéttleiki flestra fuglategunda var svipaður á brunnu svæði og óbrunnu en hrossagaukur og þúfutittlingur skáru sig úr og voru marktækt algengari á brunnu landi en óbrunnu. Er það talið stafa af bættum fæðuskilyrðum. Langtímaáhrif brunans á Mýrum eiga enn eftir að koma í ljós og stefnt er að því að fylgjast með framvindu lífríkisins á svæðinu næstu ár.
STEINSUGUR HERJA Á SJÓBIRTING
Mikið bar á því að sjóbirtingur úr ám í Vestur-Skaftafellssýslu bæri sár eftir bit sæsteinsugu (Petromyzon marinus). Tilfellin voru aðallega bundin við vatnasvæði Kúðafljóts en sáust þó víðar. Samkvæmt upplýsingum frá Benóný Jónssyni, starfsmanni Veiðimálastofnunar, báru allt að 80% fiska úr afla veiðimanna slík sár. Við eftirgrennslan kom í ljós að samskonar sár hafa sést á sjóbirtingi á svæðinu allt frá árinu 2004 en aldrei sem nú. Sæsteinsugan er frumstæður fiskur af flokki hringmunna. Hún hrygnir í fersku vatni og uppvaxtarár fisksins eru í ferskvatni. Fullorðnar steinsugur lifa hins vegar í sjó og lifa þær sníkjulífi á stærri fiskum og hvölum. Meginútbreiðslusvæði steinsugunnar liggur allajafna nokkuð sunnan Íslands og algengt er að hvalir sem hingað koma sunnan úr höfum beri nýleg sár og jafnvel áfastar steinsugur. Einstaka sinnum sést til nokkurs fjölda steinsugna við landið og seinni hluta sumars 2004 bar til að mynda töluvert á þeim í sjónum út af Reykjanesi (sjá annál 2004).
FUGLAR
Staða rjúpunnar virtist veik og fækkaði henni á ný eftir aðeins tveggja ára uppsveiflu þrátt fyrir takmarkaðar veiðar. Miðað við friðunaraðgerðir árin 2003–2005 og fyrri stofnsveiflur hefði mátt búast við uppsveiflu í 4–5 ár áður en stofninn tæki að dala á ný. Staða arnarstofnsins var hins vegar sterkari en verið hefur í langan tíma þótt aðeins hafi þriðjungur þekktra arnarsetra verið í ábúð og útbreiðsla stofnsins enn aðallega bundin við vestanvert landið. Um vorið var vitað um 66 pör auk ungfugla og hafa ernir aldrei verið jafnmargir síðan stofninn var friðaður árið 1914 . Minna bar á flækingsfuglum til landsins en oft áður. Við Baulutjörn á Mýrum sást til stúfgoða (Podilymbus podiceps) þann 26. apríl og mun það vera í annað sinn sem tegundin sést hér á landi svo vitað sé. Þistilfinka (Carduelis carduelis) sást við Brunnhól á Mýrum 12. október, nánast á sama stað og sama dag og árið 2005 þegar fyrst sást til tegundarinnar hérlendis. Daginn eftir sáust þistilfinkur á Höfn í Hornafirði og við Horn á Norðfirði. Þann 1. nóvember sást enn á ný til tegundarinnar og nú við Djúpavog. Hugsanlega var þar á ferð annar af fuglunum tveim sem sáust á Austurlandi tveimur vikum fyrr.
FISKAR
Afar sjaldgæf surtlutegund veiddist við karfaveiðar djúpt suðvestur af landinu. Fiskurinn hefur ekki hlotið íslenskt nafn en ber vísindanafnið Linophryne maderensi. Áður hefur tegundin aðeins fundist úti fyrir ströndum Madeira og því er fundur hennar svo norðarlega nokkuð sérstakur.
HVALIR
Fréttir bárust af sérstæðum hvalreka fyrir botni Lónafjarðar á Þistilfirði þann 20. janúar. Hvalurinn reynist vera náhvalur, sem er hánorræn tegund og fremur sjaldgæf við strendur Íslands. Annar hvalur frá norðlægari slóðum sást á sundi í nokkra daga inni á Mjóafirði eystri í júlí. Þar var kominn mjaldur, sem líkt og náhvalur er fremur sjaldgæfur hér við land og yfirleitt líða mörg ár milli þess sem til hans sést hérlendis.
SKORDÝR Á FLÆKINGI
Sumarið 2006 bar óvenjumikið á tveimur flækingum skordýra sunnanlands. Jóhannes Skaftason skrifaði Náttúrufræðingnum minnispunkta um þá. Þetta eru kálmölur Plutella xylostella og netvængja sem líklegast er Chrysoperla carnea. Kálmölinn mátti sjá strax í byrjun júní víða sunnanlands og var allmikið af honum. Um miðjan ágúst var nokkuð um að púpur væru að sýna sig og ný kynslóð af kálmöl sem hafði þroskast hér um sumarið. Púpur þessar eru sveipaðar neti og sitja gjarnan nokkuð frá verksummerkjum lirfunnar, t.d. uppi í grasstrái eða á fersku og óskemmdu kartöflublaði. Netvængjan var hér á ferðinni allavega frá miðjum júní og fram eftir júlí og það um allt sunnanvert landið, þ.e. í Reykjavík og Hafnarfirði, í grennd við Grindavík, við Svínafell í Öræfum, undir Eyjafjöllum og í allnokkrum mæli í grennd við Hveragerði.