Náttúrustofa Austurlands

Náttúrustofa Austurlands

Davíð Gíslason

Bls: 77–78 1.–2. hefti 76. árg. 2007
Náttúrustofa Austurlands var stofnuð 1995 og er því elsta náttúrustofa landsins. Stofan er rekin af Fjarðabyggð samkvæmt samningi við umhverfisráðuneytið. Starfsstöðvar hennar eru tvær, önnur í fræðasetrinu Búlandi í Neskaupstað en þar eru einnig til húsa Verkmenntaskóli Austurlands, Matís og Fiskistofa. Hin starfsstöðin er á Egilsstöðum í húsnæði Skógræktar ríkisins. Meginhlutverk stofunnar er að rannsaka náttúru Austurlands. Þar ber helst að nefna rannsóknir á íslenska hreindýrastofninum og á náttúrufari, einkum gróðri og fuglum. Sem dæmi um verkefni má nefna gróðurkortlagningu og skráningu fugla og plantna vegna mats á umhverfisáhrifum ýmissa framkvæmda, vöktun á gróðri og öðrum umhverfisþáttum vegna álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði, umsjón með sýningarsal Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað og umsjón með Fólkvangi Neskaupstaðar. Síðast en ekki síst er eitt af hlutverkum stofunnar að fræða almenning um náttúru Austurlands. Auk aðildar að fræðasetrinu Búlandi er stofan aðili að Þekkingarneti Austurlands og samstarfsfélagi í þekkingarsetrinu Vonarlandi á Egilsstöðum.