Náttúrustofa Reykjaness

Náttúrustofa Reykjaness

Sveinn Kári Valdimarsson

Bls: 61–62 1. hefti 75. árg. 2007
Náttúrustofa Reykjaness hefur aðsetur í Sandgerði, á Garðvegi 1, og er í sama húsnæði og Fræðasetrið, Botndýrastöðin og Háskólasetur Suðurnesja (1. mynd). Að Botndýrastöðinni standa Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands og því má segja að á Garðvegi 1 sé kominn upp áhugaverður vísir að litlu vísindasamfélagi. Grindavíkurbær og Sandgerðisbær standa að rekstri Náttúrustofu Reykjaness.

Á Náttúrustofu Reykjaness hefur verið lögð áhersla á náið og gott samstarf við innlendar sem erlendar rannsóknastofnanir. Enda er það ein af frumforsendum þess að litlar stofnanir geti náð að dafna. Námsverkefni hafa verið áberandi enda mikilvægt að kynna svæðið fyrir námsfólki og auka fjölbreytni náms á svæðinu. Svo sem lög kveða á um (lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60 frá 1992, með síðari breytingum frá 2002) safnar stofan gögnum og heimildum um náttúrufar Reykjanesskagans. Þar er veitt fræðsla og ráðgjöf um umhverfismál og náttúrufræði og hefur hún sinnt verkefnum fyrir sveitarfélög, ríki, einstaklinga (2. mynd), fyrirtæki og aðra aðila.