Náttúrustofur

Náttúrustofur

Sveinn Kári Valdimarsson

Bls: 60 1. hefti 75. árg. 2007
Á landinu eru starfræktar sjö náttúrustofur og var sú fyrsta stofnsett árið 1995. Náttúrustofur starfa samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60 frá 1992, með síðari breytingum frá árinu 2002. Um hlutverk náttúrustofa segir í lögunum:
a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
b. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
c. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
d. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
e. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar.

Rekstur náttúrustofa er í höndum þeirra sveitarfélaga sem gert hafa samning við Umhverfisráðuneytið. Ríkissjóður leggur árlega fé til stofanna gegn mótframlagi sveitarfélaganna.
Fyrsta stofan var Náttúrustofa Austurlands og hóf hún störf á Neskaupstað árið 1995. Fleiri fylgdu í kjölfarið og árið 2003 var sú sjöunda stofnuð.

Hugmyndin að baki náttúrustofum er að færa þekkingaröflun í náttúrufræðum út til landsbyggðarinnar, þar sem talið er að betur mætti sinna þeim málum með starfsfólki á staðnum. Einnig komu málefni atvinnuþróunar við sögu, en talið var að með stofnun náttúrustofa mætti fjölga menntastörfum úti á landsbyggðinni. Þetta hefur gengið eftir og eru starfsmenn stofanna nú ríflega 30 auk fjölda sumarfólks. Verkefnin eru af ýmsum toga og ná yfir landið allt eins og sjá má á 1. mynd. Auk fjölbreyttra verkefna á sviði náttúrufræða og umhverfismála hafa stofurnar tekið virkan þátt í fræðslu og menntunarmálum og má sem dæmi nefna að nú eru í gangi ein sjö doktorsverkefni í tengslum við stofurnar auk fjölda meistaranámsverkefna.