Norðurheimskautsbaugurinn í Grímsey
Árni Hjartarson
Bls: 70–72 1.–2. hefti 76. árg. 2007
ÁGRIP
Íslensk skólabörn læra snemma að heimskautsbaugurinn liggur skammt fyrir norðan land og þvert yfir Grímsey. Sagt var að hann lægi langsum eftir hjónarúminu á prestssetrinu í Miðgörðum og að prestur lægi norðan baugsins en maddaman sunnan hans. Þetta á að vísu ekki við í dag því prestssetur er ekki lengur í Grímsey og baugurinn er nokkuð norðan Miðgarða eða í grennd við Bása, ysta bæinn á eynni. Málið vandast hins vegar þegar benda skal nákvæmlega á legu þessarar ímynduðu línu á yfirborði jarðar. Skammt norðan við bæinn að Básum er varði sem merkir þennan stað; þar láta ferðalangar ljósmynda sig og fá síðan áritað skjal til staðfestingar því að þeir hafi stigið niður fæti norðan við heimskautsbaug. Þeir sem nota GPS-tæki og eru vel að sér í landafræði geta þó séð að staðsetning varðans er ekki nákvæm og að baugurinn muni liggja nokkru norðar.