Náttúruminjasafn

Bygging myndarlegs náttúrugripasafns var eitt helsta markmið stofnenda Hins íslenska náttúrufræðifélags og nú, heilli öld síðar og þremur áratugum betur er það enn baráttumál félagsins að þjóðin eignist slíkt safn. HÍN rak náttúrugripasafn á tímabilinu 1890-1908 og stóð að rekstri þess ásamt íslenska ríkinu á tímabilinu 1909-1947, en 1947 færði félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Lesa má samninginn um afhendingu safnsins hér.

Segja má að bestu ár náttúrugripasafnsins til þessa hafi verið á tímabilinu 1908-1960, þegar safnið var til húsa í „Safnahúsinu“ við Hverfisgötu, þar sem nú heitir Þjóðmenningarhús.

Náttúrugripasafnið var lokað 1960-1967, en 1967 var opnuð sýningaraðstaða við Hlemm, í sama húsi og Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft aðsetur. Fram til vors 2008 var safnakosturinn til sýnis í tveimur sölum á Hlemmi, hvorum á sinni hæð. Vorið 2008 var sýningarsölunum lokað um óákveðinn tíma. Aðkoma að safninu á Hlemmi gat vart talist glæsileg, bílastæði víðs fjarri, aðgengi fatlaðra erfitt og þröngt búið um náttúrumuni þjóðarinnar. Er ólíku saman að jafna við stöðu mála á Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands og Landsbókasafni Íslands – Háskólabóksafni.

Með nýjum safnalögum árið 2001 var Náttúruminjasafn Íslands gert að einu þriggja höfuðsafna landsins (sjá 5. grein), með þeim varnagla þó að fyrst yrði að setja um safnið sérlög. Á 133. löggjafarþingi lagði menntamálaráðherra fram frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands. Frumvarpið var samþykkt með eilitlum breytingum sem lög frá Alþingi þann 17. mars 2007.

Full ástæða er til þes að fagna tilkomu laganna um Náttúruminjasafn Íslands og er um merkan áfanga að ræða í starfsemi HÍN. Félagið leggur áherslu á að ráðist verði hið fyrsta í vinnu við stefnumótun og skipulagningu á starfsemi hins nýja safns. Þar verður að vanda vel til verks og kalla til hæfa aðila.


Ábyrgðarmaður síðu: Fræðslustjóri
Síðast yfirfarið: 22. júní 2020