Ritstjórnarstefna Náttúrufræðingsins

Tilgangur og markmið

Tilgangur Náttúrufræðingsins er að glæða áhuga fólks á náttúrufræðum og náttúru Íslands, auka náttúrulæsi og miðla nýrri þekkingu á náttúru Íslands með fjölbreyttu móti. Ritið er ætlað  félögum Hins íslenska náttúrufræðifélags og öðrum sem hafa  áhuga á. Efni er miðlað bæði í prentuðu formi og á vef tímaritsins og er aðgangur öllum opinn.  Í ritinu eru bæði greinar almenns eðlis um íslenska náttúru og ritrýndar greinar um afmarkað efni sem skrifaðar eru á þann hátt að þær höfði til hins almenna lesanda. Annað efni, eins og leiðarar, fréttir af starfsemi Hins íslenska náttúrufræðifélags og Náttúruminjasafns Íslands, bókagagnrýni o.fl.  birtist einnig í tímaritinu. Auk þessa mun heimasíða tímaritsins miðla ítarefni, efni til yngri lesenda  og vera vettvangur skoðanaskipta um málefni sem fellur að tilgangi Náttúrufræðingsins.

Öllum er heimilt að skrifa í Náttúrufræðinginn en efnið skal vera á íslensku og falla í einn neðangreindra efnisflokka. Ritstjóri og fulltrúar úr ritstjórn fara yfir efnið og ákveða hvað á að birta af óritrýndu efni (flokkur II). Þegar um ritrýnt efni (flokkur I) er að ræða fara auk þess tveir utanaðkomandi sérfræðingar yfir handritið.  Ritstjórnin getur samið við ákveðna aðila um að vera fastir pennar í ritinu og á heimasíðunni.

Efnisflokkar

Náttúrufræðingurinn birtir aðsent efni um öll svið náttúrufræða og má skipta því í eftirtalda flokka:

I Ritrýndar greinar sem miðla nýrri þekkingu um íslenska náttúru

 • Rannsóknargrein – hefðbundin grein um rannsóknir og niðurstöður þeirra sem ekki hafa birst á íslensku.         
 • Yfirlitsgrein – viðamikil grein um eitthvert af hinum mörgum sviðum náttúrufræðinnar.

II Óritrýnt efni

 •  Ritstýrðar greinar –stuttar greinar um náttúrufræðileg efni t.d. um a) áhugaverð fyrirbæri, b) efni byggt á óbirtum rannsóknarskýrslum, c) frásögn um niðurstöður ritrýndra greina sem birst hafa í erlendum tímaritum.
 • Gagnrýni og ritfregnir – um útgefið efni um náttúru Íslands; um bækur, heimildamyndir, vefsíður, smáforrit, o.fl.
 • Eftirmæli – eftirmæli um náttúrufræðinga.
 • Ljósmyndir – ljósmyndir, auk skýringartexta, sem sýna íslenska náttúru og náttúrufyrirbæri.
 • Ungi náttúrufræðingurinn – náttúrufræðilegt efni fyrir nemendur á grunnskólaaldri og/eða hugmyndir að námsefni.

III Efni á heimasíðu

 • Aðsendar athugasemdir um efni náttúrufræðingsins og áframhaldandi umræða.  
 • Ítarefni sem styður við efni greina í ritinu s.s. viðaukar og fleira efni svo sem myndbönd, hlaðvörp, vefsíður, smáforrit o.fl.
 • Almennt efni sem tengist tímabundnum málefnum sem tengjast náttúrufræði og náttúru- og umhverfismálum.
 • Viðtöl við náttúrufræðinga o.fl.
 • Ungi náttúrufræðingurinn – margvíslegt efni fyrir nemendur og kennara og vettvangur til skoðanaskipta.   

Samþykkt af stjórn HÍN, ritstjórn Náttúrufræðingsins og forstöðumanni NMSÍ, sumarið 2021


Ábyrgðarmaður síðu: Ritari
Síðast uppfært: 29. nóvember 2021