Hlaðvarpið Hinir íslensku náttúrufræðingar

Hlaðvarpið Hinir íslensku náttúrufræðingar fór í loftið rétt fyrir jól en þar ræða Helena W. Óladóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir við íslenska náttúrufræðinga um rannsóknir þeirra og störf heima og erlendis, um ástríðu þeirra fyrir náttúru og þau ævintýri sem þeir hafa ratað í. Óhætt er að segja að af nógu sé að taka, enda náttúrufræðingar bæði fróðir og skemmtilegir og hafa víða ratað.

Markmið hlaðvarpsins er að vekja athygli á margvíslegum störfum náttúrufræðinga og varpa ljósi á mikilvægi náttúrufræðigreina. Með því vill félagið glæða áhuga á náttúru og hvetja hlustendur til þess að leggja náttúrunni lið, t.d. með því að ganga í félagið.

Fyrsta þáttaröðin er nú aðgengileg á öllum helstu hlaðvarpsveitum, s.s. Spotify, Apple Podcast og Google Podcast. Í fyrstu fjóru þáttunum er rætt við Þóru Ellen Þórhallsdóttur, grasafræðing, Þráin Friðriksson, jarðefnafræðing, Bryndísi Brandsdóttur, jarðeðlisfræðing og Snorra Sigurðsson, líffræðing. Þáttunum hefur verið afar vel tekið og ánægjulegt er að hlustunin hefur dreifst mjög jafnt milli aldurshópa.

Önnur þáttröðin fer í loftið með fyrsta þættinum, 12. janúar nk. Hægt verður að nálgast alla þætti hlaðvarpsins hér á vef Hins íslenska náttúrufræðifélags á nýja árinu.