Um félagið

Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað árið 1889.

Tilgangur félagsins er að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu sem snertir náttúrufræði. Innganga í félagið er öllum heimil.

Á aðalfundi HÍN í febrúar 2015 var einstaklingsárgjald fyrir árið 2015 ákveðið kr. 5.800. Í því er fólgin m.a. áskrift að Náttúrufræðingnum. Hjónaárgjald er 6.500 kr. og nemandagjald 4.000 kr.

Verð á einu nýju tölublaði (tvöföldu hefti) Náttúrufræðingsins í lausasölu er 3,000 kr.

Fræðslufyrirlestrar um náttúrufræðileg efni eru fluttir mánaðarlega, frá september til apríl, að jafnaði síðasta mánudag hvers mánaðar. Fræðsluferðir til alhliða náttúruskoðunar eru farnar að sumarlagi. Hins vegar hefur starfsemin raskast nokkuð nú á tímum covid-19.

Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf út félagsbréf og dreifði til félagsmanna sinna en sendir nú út rafrænt fréttabréf til allra sem skrá sig á póstlistann hér á síðunni.

Lög Hins íslenska náttúrufræðifélags

Formenn frá upphafi

Myndir efst á síðu

Í nokkur ár voru það dýrateikningar úr verkinu Dýraríki Íslands eftir Benedikt Gröndal skáld, náttúrufræðing og fyrsta formann HÍN sem birtust efst á síðunni. Teikningarnar vann Benedikt á árunum 1874-1905 en þær komu fyrst fyrir almenningssjónir 1975 þegar bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. prentaði viðhafnarútgáfu með teikningunum í tilefni af 150 ára afmæli Benedikts 6. október 1976. Formannsstarfi HÍN gegndi Benedikt á tímabilinu 1889-1900.

Vorið 2020 var ákveðið að breyta til og nota nokkrar myndir af mosum og fléttum. Myndirnar minna okkur vonandi á þær góðu greiningabækur sem nú standa til boða fyrir þessa hópa, Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason; og Íslenska fléttuhandbókin eftir Hörð Kristinsson.

Einkennismerki félagsins

Einkennismerki HÍN

Í mars árið 1989 var efnt til samkeppni um einkennismerki Hins íslenska náttúrufræðifélags, í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Það voru 44 sem sendu inn tillögur en dómnefnd var skipuð Arnþóri Garðarssyni prófessor, Eggerti Péturssyni myndlistarmanni og Kristínu Þorkelsdóttur auglýsingateiknara. Það var samdóma álit nefndar að velja framlag Kristínar Arngrímsdóttur sem skýrði merkið með þeim hætti að þríhyrningurinn geti táknað fjall en sé líka tákn sköpunarinnar. Kímblöðin tvö séu tákn gróskunnar.

Sjá nánar í skýrslu stjórnar fyrir árið 1989, rituð af Þóru Ellen Þórhallsdóttur í Náttúrufræðinginn 1991 (61:71-75).