Hörður Kristinsson (1937-2023)

Frá er fallinn okkar kæri Hörður Kristinsson, stofnandi Flóruvina.

Á Austurfjalli í Dalsmynni að skoða fjallavorblóm og fleira fallegt, sumarið 2005 (GVI).

Hörður var mikill hugsjónamaður og grasafræðingur af lífi og sál. Grasafræðina hafði hann að ævistarfi, bæði í starfi sínu við Háskóla Íslands og hjá Náttúrufræðistofnun, en að auki eyddi hann ótöldum stundum af sínum frítíma við að sinna fræðunum á einn eða annan hátt. Auk þess að hafa það sem hugsjón að safna sem mestum upplýsingum um flóru Íslands þá brann hann fyrir því að vekja áhuga sem flestra á hinu sama. Bækur hans, Plöntuhandbókin og Íslenskar fléttur, eru landsmönnum að góðu kunnar og kannast eflaust flestir við að eiga aðra hvora eða báðar á heimili sínu. Og ekki má gleyma verðlaunabókinni Flóru Íslands sem kom út árið 2019. Þess má geta að handbók hans um fléttur sú eina sem gefin hefur verið út á íslensku um efnið og opnaði Hörður þannig annars hulinn heim fyrir okkur sem áhuga höfum á að geta nefnt lífverurnar sem við deilum landinu með.

Hörður að skoða afrakstur söfnunar á tungljurtum (Botrychium spp.) í borðstofunni á Vatnsenda í Flóa.
Ljósmynd: Þórunn Kristjánsdóttir (2005).

Hörður var mikill göngugarpur og ferðaðist víða um landið, bæði í starfi sínu en þó fyrst og fremst í frítíma sínum með Sigrúnu sinni. Hann skráði jafnan þær tegundir sem hann fyrirfann á ferðum sínum og bætti þannig við vaxandi gagnagrunn um íslenska flóru. Þann þekkingarauð sem hann skilur eftir sig eigum við því ekki bara Herði að þakka heldur einnig hans góðu konu.

Á náttstað í Viðfirði að hringja heim fyrir nóttina. Áfangastaðurinn var Sandvík, til að skrá útbreiðslu skógelftingar (GVI).

Hann var góður lærifaðir og óþreytandi að deila þekkingu sinni á sinn hógværa hátt. Persónulega er ég þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Herði, lært af honum og tekið snúning með honum í Danssal Harðar, sem grasasafnið á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar kallast öðru nafni. Sömuleiðis er ég þakklát fyrir þann grunn sem hann lagði er hann stofnaði Flóruvini árið 1998, sem var nógu sterkur til þess að bera áframhaldandi starf eftir að Hörður lét keflið ganga til næsta manns.

Hvað flestar tegundir má finna þegar maður tyllir sér niður til að borða nestið sitt eða kasta mæðinni.

Megi okkur auðnast að halda uppi heiðri Harðar og líkt og hann, kynnast nánar náttúru landsins, safna saman þekkingu um hana og koma henni áfram til næstu kynslóðar.

Fjölskyldu hans og vinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Flóruvina,

Gróa Valgerður Ingimundardóttir