Flóruvinir

Vorið 2020 ákvað stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags að taka opnum örmum á móti starfsemi sem fram að því hafði fallið undir Flóruvini, samstarfshóp sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á íslensku flórunni. Hópurinn var stofnaður af Herði Kristinssyni (1937-2023) árið 1998 og hafði það að markmiði „að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða aðra flóruvini við greiningar á plöntum“. Þessi markmið eru í fullu samræmi við lög HÍN þar sem segir að tilgangur félagsins sé að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Í samræmi við lögin er því tilgangur deildar Flóruvina að glæða áhuga og auka þekkingu manna á flóru Íslands.


Hörður Kristinsson (1937-2023) stofnaði Flóruvini árið 1998

– Sjá minningarorð hér.


Forsvarsmenn Flóruvina

Í forsvari fyrir Flóruvini eru Gróa Valgerður Ingimundardóttir, Pawel Wasowicz, Guðrún Óskarsdóttir og Björn Hjaltason. Félagsmenn sem eru áhugasamir um að taka þátt í starfinu, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við nefndina. Einu skilyrðin er vilji til að nota fjarskipti svo búseta komi ekki að sök og áhugi á að vinna að markmiðum nefndarinnar auk þess að vera félagi í HÍN. Mikil þekking á flóru landsins er ekki krafa!


Hefur þú prófað plöntusöfnun?!

Það er lærdómsríkt og gefandi áhugamál sem auk þess eflir vísindin ef rétt er að staðið.

Sjá nánar hér.


Starf Flóruvina

Árið 2022

Formaður Flóruvina á árinu var Gróa Valgerður Ingimundardóttir en að auki sátu í nefndinni Hörður Kristinsson í heiðurssæti, Pawel Wasowicz, Snorri Sigurðsson og Starri Heiðmarsson. Stærri hluta ársins þurfti þó formaður hópsins að taka sér leyfi frá félagsstörfum og tóku þá nefndarmenn við keflinu.

Facebook hópur Flóruvina hélt áfram að vaxa á árinu telur nú 3451 meðlimi. Virknin datt þó niður á árinu samanborið við árið á undan og varð hópurinn auk þess fyrir barðinu á nettröllum eða öðru viðlíka. Fylgjendum Facebook síðu Flóruvina fjölgaði um tæpa fimm tugi og eru nú 549 talsins en þar höfum við komið á framfæri helstu fréttum. Undirsíðu Flóruvina á heimasíðu félagsins (hin.is) var viðhaldið en þar eiga Flóruvinir líka fréttir eða fróðleiksmola sem má skoða sérstaklega með að velja fréttaflokkinn „Flóruvinir“.

Heiðri Dags hinna villtu blóma var haldið uppi af einkaframtaki en í ár sinntu Flóruvinir því miður ekki þessum hluta starfsins sem annars hefur verið fastur liður í starfinu.

Gróa sótti sameiginlegan fund grasafræðifélaga Norðurlandanna þann 29. – 30. október í Uppsölum, í húsakynnum Sænska grasafræðifélagsins (Svensk botanisk förening). Á þessum fundi voru mættir fulltrúar Norska grasafræðifélagsins (Norsk botanisk forening), Danska grasafræðifélagsins (Dansk botanisk forening), finnskra áhugamanna um grasafræði (þeir hafa ekki eigið grasafræðifélag), auk okkar og Svía. Það er einkar hvetjandi að sækja þessa fundi og þeir eru frábær leið til að sækja innblástur fyrir Flóruvini. Starf norrænu félaganna er mjög misöflugt en sem dæmi má nefna að flestir fundargestir voru starfsmenn félaganna sem hafa það fyrir sitt aðalstarf að vinna að markmiðum sinna félaga. Andinn á þessum fundum er alltaf mjög góður og þar má finna fyrir miklum stuðningi við okkur sem höfum minna bakland í þessum efnum, þ.e. Finna og Íslendinga. Í ár stóð HÍN fyrir ferðakostnaði fulltrúa síns og er ekki laust við að það hafi verið mikill styrkur í því!

Árið 2021: Sjá nánar hér (pdf)
Árið 2020: Flóruvinir voru teknir inn í HÍN (ársskýrsla HÍN)



Ábyrgðarmaður síðuhluta: Gróa Valgerður Ingimundardóttir
Síðast uppfært af GVI: 30. júlí 2023