Flóruvinir

Vorið 2020 ákvað stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags að taka opnum örmum á móti starfsemi sem fram að því hafði fallið undir Flóruvini, samstarfshóp sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á íslensku flórunni. Hópurinn var stofnaður af Herði Kristinssyni árið 1998 og hafði það að markmiði „að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða aðra flóruvini við greiningar á plöntum“. Þessi markmið eru í fullu samræmi við lög HÍN þar sem segir að tilgangur félagsins sé að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Í samræmi við lögin er því tilgangur deildar Flóruvina að glæða áhuga og auka þekkingu manna á flóru Íslands.

Forsvarsmenn Flóruvina

Í forsvari fyrir Flóruvini eru Hörður Kristinsson, Gróa Valgerður Ingimundardóttir, Pawel Wasowicz, Starri Heiðmarsson og Snorri Sigurðsson. Félagsmenn sem eru áhugasamir um að taka þátt í starfinu, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við nefndina. Einu skilyrðin er vilji til að nota fjarskipti svo búseta komi ekki að sök og áhugi á að vinna að markmiðum nefndarinnar auk þess að vera félagi í HÍN. Mikil þekking á flóru landsins er ekki krafa!




Ábyrgðarmaður síðuhluta: Gróa Valgerður Ingimundardóttir
Síðast uppfært af GVI: 16. maí2023