Fræðsla

Fræðslufundir

Fræðsluerindi HÍN eru jafnan haldin síðasta mánudag hvers mánaðar á tímabilinu september til apríl, að desember undanskildum. Erindin hefjast kl. 17:15 og fara fram í stou 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands í Vatnsmýri.

Erindin eru kynnt á heimasíðu HÍN, í fréttabréfi HÍN og á Facebook síðu HÍN og eru öllum opin.

Fræðsluferðir

Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur boðið félagsmönnum upp á langar og stuttar fræðsluferðir í gegnum tíðina. Langa ferðin svokallaða var um alllangt árabil farin síðla í júlí og stóð yfir í nokkra daga. Á allra síðustu árum hafa vinsældir löngu ferðanna minnkað og við því hefur verið brugðist með því að bjóða upp á stuttar dagsferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og hafa þær verið vel sóttar.

Náttúruminjasafn

Bygging myndarlegs náttúrugripasafns var eitt helsta markmið stofnenda Hins íslenska náttúrufræðifélags og nú, heilli öld síðar og rúmum þremur áratugum betur er það enn baráttumál félagsins!

Þó þjóðin sé ekki enn búin að eignast myndarlegt sýningahús stendur Náttúruminjasafns Íslands þó fyrir smærri sýningum sem við hvetjum fólk til að skoða!

Útgáfa HÍN

Auk útgáfu á Náttúrufræðingnum hefur Hið íslenska náttúrufræðifélag einnig staðið að útgáfu á nokkrum bókum ásamt geisla- og mynddiski.


Ábyrgðarmaður síðuhluta: Fræðslustjóri
Síðast uppfært: 22. júní 2020