Dagur hinna villtu blóma

Eftirfarandi aðilar standa öllu jafna fyrir göngu á Degi hinna villtu blóma:

  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Náttúrustofa Austurlands
  • Vatnajökulsþjóðgarður
  • Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Nánari upplýsingar um ferðir á Degi hinna villtu blóma má sjá undir Viðburðir og á Facebook síðu Flóruvina.

Saga dagsins

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir, oftast þriðja sunnudaginn í júní. Dagur hinna villtu blóma byrjaði á vegum danska grasafræðifélagsins (d. Dansk botanisk forening, De vilde blomsters dag) í Danmörku árið 1988 – þar með taldar Færeyjar og Grænland. Norska grasafræðifélagið (n. Norsk botanisk forening, Villblomstenes dag) tók upp sama sið í Noregi árið 2001, þar með talið á Svalbarða en Svalbarði hefur m.a.s. sitt eigið grasafræðifélag. Sænska grasafræðifélagið (s. Svensk botanisk förening, De vilda blommornas dag) fylgdi í kjölfar Noregs tók upp daginn árið 2002. Hörður Kristinsson tók upp Dag hinna villtu blóma í nafni Flóruvina og Íslendinga árið 2004. Finnar eru í sama báti og við en þeir hafa ekki haft öflugt grasafræðifélag líkt og nágrannar okkar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Hörður hélt utan um Dag hinna villtu blóma árin 2004-2018 en árið 2019 var ákveðið millibilsástand þar sem enginn samhæfði ferðirnar líkt og Hörður hafði gert. Hins vegar hafði Hörður kynnt daginn það vel að farnar voru nokkrar ferðir þó við höfum ekki yfirsýn yfir þær – Grasagarður Reykjavíkur stóð þó fyrir ferð um Rauðhóla það árið. Árið 2020 voru Flóruvinir nýkomnir undir væng Hins íslenska náttúrufræðifélags en þrátt fyrir það auk áhrifa heimsfaraldursins voru sjö ferðir skipulagðar sem Flóruvinum er kunnugt um. Þær voru á vegum Grasagarðs Reykjavíkur, Náttúrustofu Austurlands, Sauðfjársetursins á Ströndum og fjórar ferðir voru á vegum Umhverfisstofnunar.

Myllumerki á samfélagsmiðlum

Við hvetjum alla sem ýmist fara í skipulagða skoðunarferð eða fara út að skoða plöntur á eigin vegum á Degi hinna villtu blóma, til að taka myndir fyrir samfélagsmiðla og merkja þær með myllumerki. Það má ýmist nota #DagurHinnaVilltuBlóma eða hið sama en enda á viðeigandi ártali, þ.e. #DagurHinnaVilltuBlóma2023. Þeim sem óar fyrir svo löngu merki geta huggað sig við það að Instagram kemur með uppástungu að merki áður en maður þarf að skrifa alla rununa. Sömuleiðis hafa nágrannar okkar í Skandinavíu notast við skammstöfun svo þá væri hægt að hugsa sér að nota #DHVB eða með ártali í endann: #DHVB2023.


Ábyrgðarmaður síðuhluta: Gróa Valgerður Ingimundardóttir
Síðast uppfært: 28. júní 2023