Náttúrufræðingurinn

Vefsvæði Náttúrufræðingsins er natturufraedingurinn.is. Þar má nálgast allar helstu upplýsingar um tímaritið þ.á.m. leiðbeiningar til höfunda, tölublöð aftur til ársins 2020 og hvernig hafa má samband við ritstjóra. Félagar Hins íslenska náttúrufræðifélags eru sjálfkrafa áskrifendur tímaritsins.


Hér má finna leiðbeiningar til höfunda.

Hér má finna ritstjórnarstefnuna.

Útgáfa og ritstjórn
Greinar í opnum aðgangi
Ritstjórar Náttúrufræðingsins frá upphafi
Saga Náttúrufræðingsins

Náttúrufræðingurinn er tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags. Um er að ræða alþýðlegt fræðslurit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði, jafnt fræðilegar greinar í bland við almennan fróðleik. Margar greinar í ritinu fjalla um rannsóknaniðurstöður á íslenskri náttúru sem eru hvergi birtar annars staðar. Leitast er við að gera efninu skil á aðgengilegan hátt þannig að áhugasamir leikmenn sem og fræðimenn geti haft bæði gagn og gaman af, þó án þess að slakað sé á í kröfum um gæði og áreiðanleika.

Í hverjum árgangi eru fjögur hefti sem ýmist eru gefin út stök eða fleiri saman. Áskrift að tímaritinu er innifalin í félagsgjaldi. Ritið er auk þess keypt af ýmsum stofnunum og nálgast má Náttúrufræðinginn á öllum helstu bókasöfnum landsins.

Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst árið 1931 og hefur verið samfelld í átta áratugi. Enn eru fáanlegir eldri árgangar Náttúrufræðingsins frá og með 46. árgangi 1976 og örfá eldri hefti.

Verð Náttúrufræðingsins í lausasölu er eftirfarandi (kr. pr. hefti): árg. 30.–70., 100 kr.; árg. 71.–73. 400 kr.; árg. 74.–79. 750 kr. og; 80. árg og yngri, 1.772 kr. Heftin má nálgast í afgreiðslu Náttúruminjasafns Íslands að Suðurlandsbraut 24, Reykjavík.


Útgáfa og ritstjórn

Árið 1996 gerðu HÍN og Náttúrufræðistofnun Íslands með sér samning um umsjón með ritstjórn tímaritsins, þeim samningi var sagt upp af hálfu stjórnar HÍN. Nýr samningur um umsjón með ritstjórn tímaritsins var gerður í september 2006 við Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Á árunum 1996-2006 hafði Náttúrufræðistofnun Íslands umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins samkvæmt þar að lútandi verktökusamningi við félagið. Ritstjóri tímaritsins þá var Álfheiður Ingadóttir, útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar. Á tímabilinu 2006-2010 hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs umsjón með ritstjórn og útgáfu tímaritsins samkvæmt verktökusamningi við félagið. Ritstjóri var Hrefna B. Ingólfsdóttir. Samningurinn við Náttúrufræðistofuna rann út 1. maí 2010, en ritstjórinn hafði áfram aðstöðu á Náttúrufræðistofunni. Hrefna tók sér hlé frá ritstjórn á tímabilinu desember 2012 til október 2013 er hún tók við á ný.

Í febrúar 2014 gerðu Náttúruminjasafn Íslands og Hið íslenska náttúrufræðifélag með sér samning um ritstjórn og útgáfu á Náttúrufræðingnum. Frá og með 1. hefti í 84. árgangi hefur Náttúrufræðingurinn verið gefinn út í nafni félagsins og safnsins í samræmi við samninginn. Í desember 2021 var samningurinn endurskoðaður og má nálgast samninginn hér:

Margrét Rósa Jochumsdóttir tók við sem ritstjóri þann 1. janúar 2022. Þar áður gengdi Álfheiður Ingadóttir starfi ritsjóra en hún tók við af Hrefnu B. Ingólfsdóttur þann 1. nóvember 2014.

Ritstjórinn er starfsmaður Náttúruminjasafnsins og félagsins sem skipta með sér til helminga launakostnaðinum, kostnaði við prófarkalestur, prentkostnaði og kostnaði við dreifingu á Náttúrufræðingnum.


Ritstjórar Náttúrufræðingsins frá upphafi

Árni Friðriksson, fiskifræðingur og Guðmundur G. Bárðarson, jarðfræðingur 1931-1932
Árni Friðriksson, fiskifræðingur 1933-1941
Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur 1942-1944
Sveinn Þórðarson, eðlisfræðingur 1945-1946
Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur 1947-1949
Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur og Hermann Einarsson, fiskifræðingur 1950
Hermann Einarsson, fiskifræðingur 1951
Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur 1952-1953
Hermann Einarsson, fiskifræðingur 1954-1955
Sigurður Pétursson, gerlafræðingur 1956-1965
Örnólfur Thorlacius, líffræðingur 1966
Óskar Ingimarsson, þýðandi og þulur 1967-1971
Sigfús Schopka, fiskifræðingur1972-1975
Kjartan Thors, jarðfræðingur 1976-1980
Helgi Torfason, jarðfræðingur 1980-1984
Helgi Torfason, jarðfræðingur og Árni Einarsson, líffræðingur 1985(1)
Árni Einarsson, líffræðingur 1985(2)-1988(1)
Páll Imsland, jarðfræðingur 1988(2)-1991
Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur 1992-1997(1-2)
Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur 1997(3-4)-2006(3-4)
Hrefna B. Ingólfsdóttir, líffræðingur 2006-2012
Sighvatur Blöndahl 2012-2012
Hrefna B. Ingólfsdóttir, líffræðingur 2012-2014(1-2)
Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur 2014(3-4)-
Margrét Rósa Jochumsdóttir, þróunarfræðingur 2022-


Saga Náttúrufræðingsins

Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst árið 1931 og hefur verið samfelld í átta áratugi. Upphaflegt markmið með útgáfunni var að gefa út alþýðlegt rit um náttúrufræði sem þrátt fyrir margar útlitsbreytingar í gegnum tíðina, hefur haldist allar götur síðan.

Upphafsmenn ritsins voru dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur og dr. Guðmundur G. Bárðason jarðfræðingur og sáu þeir um útgáfuna í sameiningu þar til Guðmundur andaðist árið 1933. Eftir það bar Árni hitann og þungann af útgáfunni með aðstoð ýmissa velunnara. Í fyrstu var hugmynd þeirra félaga með ritinu helst sú að taka saman á einn stað og halda til haga efni sem þeir sjálfir og aðrir birtu í dagblöðum um náttúrufræði á þeim tíma. Fljótlega jókst þó umfang frumsamins efnis í blaðinu og útgáfan varð stofnendunum mun erfiðari og dýrari en þeir sáu fyrir í upphafi. Fyrstu árin var útgáfa ritsins því oft á tíðum stopul. Örðugt reyndist að innheimta áskriftargjöld hjá fátækum almenningi og eftir að heimsstyrjöldin braust út var oft á tíðum vandkvæðum bundið að útvega nothæfan pappír í ritið. Að endingu árið 1940 ákvað Árni að selja hugarfóstur sitt Guðjóni Guðjónssyni yfirprentara í von um að það mætti blása lífi í útgáfuna. Þær vonir gengu ekki eftir og ári síðar skipti Náttúrufræðingurinn enn á ný um eigendur þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag keypti ritið.

Á fyrstu árum útgáfunnar báru ritsjórarnir að miklu leyti hitann og þungann af skrifum í ritið. Mikið af efninu samanstóð af almennum fróðleik um náttúrufræði sem þýtt var og endursagt úr erlendum heimildum enda lítið um bækur eða annað útgefið efni um náttúrufræði tiltækt á íslensku á þeim tíma. Eftir því sem íslenskum náttúrufræðingum fjölgaði jókst fjöldi þeirra sem skrifuðu greinar í ritið og að sama skapi vó efni um rannsóknir á íslenskri náttúru þyngra.

Allt til dagsins í dag hefur þetta tvíþætta hlutverk Náttúrufræðingsins haldist og ritið verið öðrum þræði alþýðurit með almennum fróðleik og hinum vísindarit.

Afgreiðsla Náttúrufræðingsins er í húsakynnum Náttúruminjasafns Íslands, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Á heimasíðu Náttúruminjasafni Íslands má meðal annars finna lýsingar á innihaldi Náttúrufræðingsins frá og með árgangi 83. Efnið tímaritanna má finna hér að neðan:

Efni 83 árgangs
Efni 84 árgangs
Efni 85 árgangs
Efni 86 árgangs
Efni 87 árgangs
Efni 88 árgangs
Efni 89 árgangs
Efni 90 árgangs
Efni 91 árgangs
Efni 92 árgangs
Efni 93 árgangs


Ábyrgðarmaður síðuhluta: Fulltrúi stjórnar í ritnefnd Náttúrufræðingsins
Síðast uppfært: 30. ágúst 2023