
Þegar plöntum er safnað svo þær hafi vísindalegt gildi, þarf að gæta þess að ná allri plöntunni og pressa hana á þann hátt að allir hlutar sjáist sem best. Þá þarf að skrá dagssetningu, staðsetningu, búsvæði og hver safnaði. Þegar tegundarheiti hefur verið skráð þarf líka að skrá hver greindi tegundina.
Helst þarf að festa pressaðar plönturnar á karton í A3 stærð eða minna karton ef plönturnar eru litlar. Sumir hafa saumar plönturnar við spjöldin en algengast er að nota frímerkjapappír eins og sést á myndinni hér til hliðar.
Til hvers að safna plöntum?!
Einkasöfn geta verið mikilvægur liður fyrir einstaklinga til að kynnast einkennum plöntutegunda sem best og að sjálfsögðu gefandi áhugamál eins og önnur söfnun. Einkasöfn eru síðan gjarnan gefin opinberum söfnum þegar eigandinn hefur misst áhugann eða fallið frá.
Á Íslandi eru tvö opinber söfn: annað kallast AMNH og er staðsett á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnuna Íslands og hitt heitir ICEL og er staðsett á höfuðstöðvum Náttúrufræðistofnunar Íslands, í Garðabæ. Alls ekki fleygja einkasafni án þess að ráðfæra ykkur fyrst við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar (ni.is).
Í stórum plöntusöfnum eru til mörg eintök af algengustu tegundunum og þannig er að hægt að sjá sem mest af breytileikanum sem finnst innan tegundarinnar en sömuleiðis, ef tegundinni hefur verið safnað reglulega yfir langt tímabil er þannig hægt að nálgast upplýsingar um breytingar yfir tíma, til dæmis breytingar í blómgunartíma.
Hvernig ber maður sig að?

Plöntupressur eru einfaldar en ótrúlega þægilegar að hafa. Þær er hægt að útbúa úr tveimur fjölum sem er haldið saman með tveimur borðum eða reipisbútum sem auðvelt er að strekkja vel til að halda góðri pressu á plöntunum. Svo þarf bara að gæta þess að skipta nógu oft um þerripappír því plöntur sem þorna of hægt geta orðið svartar.
Plöntupressupappír er frekar sérstakur að gerð og sérstaklega til þess fallinn að þurrka plöntur. Hann má nota út í hið óendanlega ef vel er farið með hann. Hjá Lundarháskóla þar sem ég starfa, er stranglega bannað að setja plönturnar beint á pappírinn heldur þarf að setja plönturnar milli dagblaða eða eins og ég geri, á venjulegan prentarapappír. Hér er svo pressupappírinn settur í þurrkofn eftir notkun og lítið herbergi helgað plöntupressun og því sem henni tilheyrir.


Með einföldum tein, í þessu tilviki steyputein, strekkir maður á reipinu til að ná góðri pressu. Svo rekur maður teininn lengra í gegn þar til hann nemur við borðið til að pressan haldist. Eins og sjá má á slitnu neðra borði þar sem reipið liggur hefur pressan verið mikið notuð.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var ég í þetta sinn bara að pressa stök blöð en það er auðvitað ekki vaninn ef plöntum er safnað.
Venjulegur prentarapappír er sýrufrír og því upplagður fyrir plöntupressun. Sömuleiðis gerir hann það auðveldara að pressa plönturnar fallega þar sem papprírinn er það sléttur og sleipur.

Gróa Valgerður Ingimundardóttir
Síðast uppfært: 30. júlí 2023