Bergþór Jóhannsson : minningarorð

Bergþór Jóhannsson : minningarorð
Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Bls: 4–6 1. hefti 75. árg. 2006

Á aðventu 2006 var til moldar borinn í Reykjavík Bergþór Jóhannsson, eini mosafræðingurinn sem Ísland hefur alið. Mig langar til að minnast Bergþórs, fyrst og fremst fyrir hans merka framlag til þekkingar á náttúru Íslands en einnig sem samstarfsmanns og vinar.
Bergþór var fæddur í Goðdal á Ströndum 11. desember árið 1933. Goðdalur liggur skammt norðan Hólmavíkur og segir í Árbók Ferðafélagsins árið 1952 að þar sé „aðkreppt nokkuð eins og jafnan í þröngum dölum“. Bæjarhúsin stóðu innarlega í dalnum og nokkrir kílómetrar til næsta bæjar. Foreldrar Bergþórs voru Jóhann Kristmundsson (f. 23. júlí 1906) og Svanborg Ingimundardóttir (f. 19. júlí 1913). Á undan þeim bjó í Goðdal afi Bergþórs, Kristmundur Jóhannsson, sem var rómaður jarðræktarmaður og hlaut fyrir verðlaun úr sjóði Kristjáns konungs IX. Í Goðdal ólst Bergþór upp við hefðbundin landbúnaðarstörf þess tíma ásamt systkinum sínum, Hauki (f. 1935), Erlu (f. 1937), Svanhildi (f. 1940) og Ásdísi (f. 1946). Þeir Haukur voru sendir í heimavistarskóla á Reykjum í Hrútafirði og þar barst Bergþóri sú frétt í desember 1948 að snjóflóð hefði fallið á bæinn í Goðdal og að móðir hans og tvær yngri systur hefðu látist. Faðir hans lést nokkrum árum síðar og stóð þá Bergþór uppi munaðarlaus. Í minnisstæðu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 rifjaði Bergþór þessa atburði upp og lýsti því hvernig honum voru færðar fréttirnar um að hann hefði misst móður sína og systur og að heimili hans væri horfið og hvernig hann var síðan skilinn eftir einn til að átta sig á þessu.