Grunnvatnsmarflær á Íslandi

Grunnvatnsmarflær á Íslandi
Bjarni K. Kristjánsson og Jörundur Svavarsson
Bls: 22–28 1.–2. hefti 76. árg. 2007
INNGANGUR
Sumarið 1998 var annar höfunda (Bjarni K. Kristjánsson) við rannsóknir á hornsílum í Vatnsviki í Þingvallavatni. Var þetta fyrsta ferð hans til þeirra rannsókna, en áður hafði hann unnið að rannsóknum á lífríki sjávar hjá Agnari Ingólfssyni. Við þessar rannsóknir var notað rafveiðitæki, sem lamar fiska þannig að auðvelt er að ná þeim upp. Það kom veiðimanninum lítið á óvart í fyrstu rannsóknarferðinni þegar upp flaut hvít marfló (1. mynd), en hún var þó veidd og fékk að fara í fötuna innan um hornsílin. Að veiðum loknum var farið heim með fenginn og sagt frá því að veiðst hefði talsvert af hornsílum og ein marfló. Viðbrögð fræðimanna á staðnum urðu mikil og veiðimanninum var kurteislega bent á að þótt einhver hundruð tegunda marflóa lifðu í sjónum við Ísland væru ferskvatnsmarflær með öllu óþekktar í íslensku ferskvatni. Þetta hlyti að vera sjávarmarfló, sem gleymst hefði að hreinsa úr fötu sem notuð hefði verið í sjávarrannsóknum eða eitthvað annað í svipuðum dúr. En veiðimaðurinn hélt því stöðugt fram að kvikindið hefði verið lifandi þegar það veiddist í hinu ferska grunnvatni.

Næst var haldið með marflóna, nú varðveitta í formalíni, til flokkunarfræðings (Jörundar Svavarssonar) til greiningar. Flokkunarfræðingurinn greindi veiðimanninum frá því að hann hefði aldrei séð þessa marflóategund. Hann taldi að hér væri líklega um að ræða leifar í fötu úr einhverri sjávarveiðiferð, en hafði grun um að veiðimaðurinn væri einfaldlega með einhvern hrekk í huga. Sagðist hann mundu trúa veiðimanninum ef hann færði sér annað eintak. Þrátt fyrir mikið átak við hornsílaveiðar á sama stað fannst ekki önnur marfló fyrr en í ágúst 2000, þegar annað eintak veiddist, og varð því flokkunarfræðingurinn að fallast á að marflær lifðu í íslensku ferskvatni. Veiðimaðurinn bætti svo um betur í september sama ár og fann marflær af annarri tegund (2. mynd), nokkru smærri, á sama stað og kom með þær lifandi til flokkunarfræðingsins, sem brá á það ráð, til að sannreyna að hér væri um ferskvatn að ræða, að drekka vökvann sem marflærnar voru í. Gerði hann það þó eftir að marflærnar höfðu verið teknar í burtu, til þess að eiga ekki á hættu að drekka sönnunargögnin.

Síðan höfum við unnið að því að greina og lýsa þessum tegundum, auk þess að kanna útbreiðslu þeirra á Íslandi. Strax kom í ljós að hér var um tvær áður óþekktar tegundir grunnvatnsmarflóa að ræða. Hefur þeim nú verið lýst og er önnur þeirra einnig af áður óþekktri ætt marflóa, Crymostygidae Kristjánsson & Svavarsson, 2004; er það tegundin Crymostygius thingvallensis Kristjánsson & Svavarsson, 2004, en hin tegundin, Crangonyx islandicus Svavarsson & Kristjánsson, 2006, er af útbreiddri ætt grunnvatnsmarflóa, Crangonyctidae.
SUMMARY
Two new species of subterranean amphipods (Crustacea) have recently been discovered in Iceland. One of the species belongs to a new family of amphipods. These findings support a hypothesis that there were subglacial refugia in Iceland during the Quaternary period.

Iceland was covered by glaciers between about 2.6 M years B.P. to about ten thousand years B.P. It is an isolated island on top of the mid-Atlantic Ridge in the N-Atlantic Ocean, far from the North American and European continents. The presence of subterranean amphipods, belonging to an old group with its present distribution mainly in North America and the Eurasian continent, indicates past contact of subterranean freshwaters of Iceland and the North Atlantic continent. The amphipods currently found in Iceland may have been present in Greenland 40 M years ago, when the precursor of Iceland drifted together with the hot spot (Iceland plume) from Greenland.