Með eldfjall í bakgarðinum – Jarðvegseyðing og byggðaþróun í nærsveitum Heklu

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. nóvember 2015 stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er landfræðingurinn Friðþór Sófus Sigurmundsson sem flytur erindi sem hann nefnir Með eldfjall í bakgarðinum. Jarðvegseyðing og byggðaþróun í nærsveitum Heklu.

Ágrip af erindi

„Fá svæði á Íslandi átt eins mikið undir áhrifum eldvirkni eins og hrepparnir við Heklurætur. En Hekla hefur í gegnum söguna haft áhrif á búsetu á Rangárvöllum og sett byggðinni takmörk. Eldgos í Heklu hafa stundum valdið miklu tjóni á gróðri og byggð á svæðinu. Einnig hefur hafist uppblástur í kjölfar gjóskugosa sem hefur gerbreytt ásýnd landsins og búskaparskilyrðum. Menn hafa lengi velt fyrir sér helstu ástæðum fyrir eyðingu byggðar og þá sérstaklega hvort rekja megi orsakir til áhrifa náttúrunar, þ.e.a.s. eldvirkni eða veðurfars, eða til samfélagslegra þátta, svo sem markaða og hagsveiflna. Eyðing byggðar á Rangárvöllum var langvarandi ferli sem hófst að öllum líkindum snemma á 16. öld og lauk ekki fyrr en á seint á 20 öld. Í dag eru flestir fræðimenn sammála um að engin ein orsök sé ríkjandi þegar kemur að eyðingu byggðar og margt ber að hafa í huga þegar verið er að rannsaka eyðibyggðir. Mikið vantar samt upp á að góður skilningur sé á slíku ferli og enn skortir rannsóknir á eyðibyggðum á Íslandi. Ein af fáum rannsóknum sem gerð hefur verið á byggðaeyðingu á eldvirkum svæðum á Íslandi er eyðing byggðarinnar í Þjórsárdal um miðja síðustu öld. Enn hefur engin heildstæð rannsókn verið gerð á byggðaþróun í ofanverðri Rangárvallasýslu utan þess að unnið hefur verið að forskráningu og staðsetningu rústa. Eyðibyggðirnar við Heklurætur eru þó mun umfangsmeiri og í ennþá meiri nánd við eldfjallið, t.d. hefur hraunrennsli haft áhrif á byggðina á sögulegum tíma. Ofanverðir Rangárvellir eru því kjörið svæði til rannsókna á áhrifum eldvirkni á byggð á Íslandi..“

Friðþór Sófus Sigurmundsson fæddist 1976 og ólst upp í Laugardælum í Flóahreppi. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1998 og B.Sc. gráðu í Landfræði frá Háskóla Íslands 2009 og M.Sc. gráðu í Landfræði frá sama skóla 2011. Friðþór Sófus leggur nú stund á doktorsnám í landfræði við Háskóla Íslands.