Greinasafn fyrir flokkinn: Náttúrufræðingurinn

Nýtt hefti Náttúrufræðingsins

Út er komið 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Forsíðuna prýðir hvít tófa í fjöru en í heftinu er fyrsta grein af þremur um íslenska melrakkann og fjallar um stofnbreytingar, veiðar og verndun refastofnsins. Loks er gerð grein fyrir lifnaðarháttum og útbreiðslu skötuorms á Íslandi, stærsta íslenska hryggleysingjans sem þrífst í vötnum á hálendinu. Heftið er 84 bls.

Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur og er þetta sextánda heftið sem hún ritstýrir frá árinu 2014.

Samningur HÍN og NMSÍ

Frá árinu 2014 hefur Náttúruminjasafn Íslands kostað útgáfu Náttúrufræðingsins til helminga á móti félaginu en nú fyrir áramótin var samningurinn endurskoðaður og nokkrar breytingar gerðar. Endurskoðun samningsins var unnin af stjórn félagsins og Hilmari J. Malmquist, forstöðumanni Náttúruminjasafns Íslands.

Nýr ritstjóri Náttúrufræðingsins

Gengið hefur verið frá ráðningu í starf ritstjóra Náttúrufræðingsins sem Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands auglýstu laust til umsóknar 22. nóvember s.l. en umsóknarfrestur rann út þann 15. desember. Alls bárust sex umsóknir um starfið og var samhljóða niðurstaða beggja aðila að ráða Margréti Rósu Jochumsdóttur sem nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins.

Margrét hefur meistaragráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og hefur víðtæka reynslu í útgáfu og vefumsjón auk þess sem hún stundar nú nám í umhverfis- og auðlindafræði. Mun Margrét sjá um hefðbundna útgáfu blaðsins auk þess að hafa umsjón með nýrri vefútgáfu tímaritsins. Margrét hefur störf í byrjun febrúar 2022 og áætlað er að vefur tímaritsins verði opnaður á aðalfundi félagsins í lok febrúar, ef allt gengur eftir. Við bjóðum Margréti velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins. Álfheiði Ingadóttur, fráfarandi ritstjóra, þökkum við kærlega fyrir áratugastarf við útgáfu blaðsins en hún mun starfa áfram við ýmis störf fyrir Náttúruminjasafnið.

Ritstjórnarstefna Náttúrufræðingsins

Á árinu lauk stjórn við að endurskoða ritstjórnarstefnu Náttúrufræðingsins og er hún nú aðgengileg hér á heimasíðunni undir flipanum Náttúrufræðingurinn. Endurskoðuð stefnan var samþykkt af stjórn félagsins og í sumar send bæði ritstjórn Náttúrufræðingsins og forstöðumanni Náttúruminjasafns Íslands til umsagnar en NMSÍ styrkir útgáfu ritsins til helminga á móti félaginu.