Velheppnuð haustlitaferð

Fyrr í september efndi HÍN til ferðar á Þingvelli í fallegu haustveðri og var komið víða við. Fyrst var litið á urriða á göngu þeirra upp Öxará, en svo var farið að Davíðsgjá að borða nesti við bláma gjárinnar og skoða fléttur. Síðan skoðuðum við Vellankötlu og tvö sýni af marflónum sem eru í vatnakerfi bergsins (takk Náttúruminjasafn Íslands) áður en við fórum í Vatnskot að drekka te úr laufum af sigurskúfi og hlusta á sögur um Símon Pétursson, síðasta bóndann í Vatnskoti. Rúsínan í pylsuendanum var svo skógarganga á Veiðimannagötu í átt að Skógarkoti sem lauk í Hallshelli (einnig þekktur sem Ásgeirshellir og Skógarkotshellir). Hellirinn sem liggur inn af innganginum er 54 metra langur, en tveir aðrir ranar liggja frá honum og þetta er því hið myndarlegasta kerfi. Hópurinn fylltist svo þakklæti yfir góðviðri dagsins þegar við gengum til baka frá hellinum í úrhelli. 

Við þökkum gestum kærlega fyrir samveruna og hlökkum til fleiri stunda saman.