Greinasafn eftir: Benedikt

Nýtt hefti Náttúrufræðingsins komið út

Út er komið 1.– 2. hefti Náttúrufræðingsins, 93. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá landnámi plantna og framvindu í Surtsey síðustu 60 árin, sögu veggjalúsarinnar á Íslandi, bókinni Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta eftir Ragnar Stefánsson og nýjum rannsóknarniðurstöðum um íslenska melrakkann. 

Í blaðinu er einnig ljósmynda- og ljóðasería um Surtsey en í henni eru m.a. myndir frá upphafi Surtseyjargossins eftir Sigurð Þórarinsson og Ævar Jóhannesson. 

Forsíðuna prýðir mynd af Surtsey sem tekin var af Sigurði Þórarinssyni í lok nóvember 1963. 

Nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins hefur nú litið dagsins ljós og þar er hægt að skoða allt efni nýjasta heftisins (á forsíðu) sem og efni fyrri árganga. 

natturufraedingurinn.is

Heftið er 86 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands

Haustlitaferð á Þingvelli

Hið íslenska náttúrufræðifélag efnir til haustlitaferðar á Þingvelli 17. september. Ferðin verður undir handleiðslu Jóhannesar Bjarka Urbancic og áherslan verður á náttúruskoðun frekar en langar göngur.

Við munum hittast á bílastæðinu við Krónuna á Bíldshöfða klukkan 10:30 og sameinast þar í bíla. Þau sem vilja mæta beint geta hitt okkur við þjónustumiðstöðina á Leirum á Þingvöllum (norðan vatns, við Uxarhryggjaleið, ekki við Almannagjá) um klukkan 11:30.

Við stefnum á þriggja tíma samveru á Þingvöllum og komum með eigið nesti, en högum auðvitað seglum eftir vindi og úrkomu.

Þjónustumiðstöð:
https://goo.gl/maps/sRZAqchCpq4ph5f1A

Með von um að sjá ykkur sem flest,
Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Nú á dögunum fór í loftið nýr vefur Náttúrufræðingsins, natturufraedingurinn.is. Á vefnum má nálgast ný tölublöð tímaritsins ásamt öllum helstu upplýsingum um tímaritið þ.á.m. leiðbeiningar til höfunda. Það er von þeirra sem að vefnum standa að hann muni vaxa og dafna þegar fram líða stundir.

Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst árið 1931 og hefur verið samfelld í átta áratugi. Það er því um stórt skref í útgáfu tímaritsins að ræða sem verður þó líkt og áður gefið út á prenti.

Útgáfa tímaritsins er kostuð af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Náttúruminjasafni Íslands. Tímaritinu hefur frá upphafi verið ætlað að vera alþýðlegt fræðslurit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði. Í því birtast jafnt fræðilegar greinar í bland við almennan fróðleik. Allir félagar Hins íslenska náttúrufræðifélags eru áskrifendur Náttúrufræðingsins.

Náttúruverndarþing 2023

Laugardaginn næstkomandi, þann 29. apríl fer fram Náttúruverndarþing 2023. Þingið verður haldið í Árnesi en að því standa ýmis náttúruverndarsamtök, þ.á.m. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Þema þingsins í ár er orkuskipti, náttúruvernd og loftslagsbreytingar.

Þátttökugjald er 3.000 kr og er innifalið í því rútur til og frá Reykjavík, matur, aðstaða og skemmtun.

Skráning fer fram hér.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsvæði viðburðarins.