Færslusafn fyrir flokkinn: Fræðsluferðir

Heimsókn á sýningu Náttúruminjasafnsins

Í stað þess að haldið væri hefðbundið fræðsluerindi í desember var félögum boðið að heimsækja nýopnaða sýningu Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru íslands í Perlunni. Þar tóku á móti okkur forstöðumaður safnsins, Hilmar Malmquist og Álfheiður Ingadóttir ritstjóri. Hilmar hélt erindi þar sem stiklað var á stóru í sögu sýningarinnar og bauð fólkið velkomið. Hann og Álfheiður veittu svo gestum leiðsögn um sýninguna og svöruðu spurningum og í lokin var boðið upp á veitingar. Góð mæting var á viðburðinn og virtust félagar almennt hafa ánægju af sýningunni og að hittast á þessum vettvangi. Við þökkum þeim Hilmari og Álfheiði fyrir góðar móttökur og óskum okkur öllum til hamingju með glæsilega sýningu.

Fræðsluganga HÍN á menningarnótt 2010

Fræðsluganga Hins íslenska náttúrufræðifélags verður farin á menningarnótt, laugardaginn 21. ágúst kl. 17. Safnast verður saman við gömlu Loftskeytastöðina við Suðurgötu þar sem Náttúruminjasafn Íslands er til húsa. Síðan verður gengið milli húsa og lóða sem tengjast safnaþætti félagsins og endað í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögumenn verða Helgi Torfason, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Fræðsluganga HÍN á menningarnótt

Fræðsluganga Hins íslenska náttúrufræðifélags verður farin á menningarnótt, laugardaginn 21. ágúst kl. 17. Safnast verður saman við gömlu Loftskeytastöðina við Suðurgötu þar sem Náttúruminjasafn Íslands er til húsa. Síðan verður gengið milli húsa og lóða sem tengjast safnaþætti félagsins og endað í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögumenn verða Helgi Torfason, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Gönguferð HÍN á Þríhnúkagíg

Það var bæði rok og rigning þegar hópur göngufólks hittist á Bláfjallaveginum í gærkvöldi. Þrátt fyrir óskemmtilegt veður (sjá myndir) ákváðu rúmlega 20 manns að ganga á Þríhnúkagíg undir öruggri leiðsögn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings.

Ferðin var blaut en það var þó kátur hópur sem kom í bílana um hálftíu leytið eftir fræðandi ferð. Útsýninu yfir höfuðborgarsvæðið og Snæfellsnes sem lýst var fjálglega í leiðarlýsingunni fyrir ferðina misstum við alveg af – þetta kallar því á að fólk endurtaki gönguna í betra veðri síðar.

Myndir: Albert Þorbergsson.

Ferð í Grændal í júní 2005

Farið var í gönguferð í Grændal 23. júní 2005. Grændalur er einn þriggja dala sem liggja til norðurs úr Ölfusdal, skammt norðvestan við Hveragerði. Jarðhiti og gróður er óvenju fjölbreyttur í Grændal og er dalurinn á náttúruminjaskrá (nr. 752). Í nýju náttúruverndaráætluninni sem verið hefur til umfjöllunar á Alþingi er gerð tillaga af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um að Grændalur og Reykjadalur, næsti dalur fyrir vestan Grændal, verði að friðlandi. Í forsendum fyrir tillögunni stendur m.a. að „Jarðhitasvæði í líkingu við Grændal eru sennilega ekki til í Evrópu utan Íslands og eitt fágætra slíkra svæða í heiminum.“

Góð þátttaka var í ferðinni og heppnaðist hún í alla staði mjög vel. Leiðangursstjórar voru tveir valinkunnir fræðimenn og þaulkunnugir svæðinu, þeir Eyþór Einarsson grasafræðingur og Helgi Torfason jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Siglt um Sundin við Reykjavík í maí 2005

Laugardaginn 28. maí 2005 var velheppnuð ferð um Sundin við Reykjavík endurtekin frá árinu áður. HÍN bauð nú aftur upp á siglingu með Viðeyjarferjunni ehf. um Sundin og var m.a. siglt út að Lundey og lónað umhverfis eyna, siglt um Þerneyjarsund að Viðey og stigið á land og fjörulífið skoðað. Veðrið var gott og tæplega 40 manns mættu.

Fararstjórar og leiðbeinendur í ferðinni voru Árni Hjartarson jarðfræðingur á Orkustofnun, Konráð Þórisson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni og Arnór Þ. Sigfússon fuglafræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen ehf.

Kristín Svavarsdóttir tók myndirnar á síðunni sem teknar voru í ferðinni.
Hægt er að stækka hverja mynd með því að smella á myndina.