Greinasafn fyrir merki: Plöntupressur

Plöntupressur

Plöntupressur eru einfaldar en ótrúlega þægilegar að hafa. Þær er hægt að útbúa úr tveimur fjölum sem er haldið saman með tveimur borðum eða reipisbútum sem auðvelt er að strekkja vel til að halda góðri pressu á plöntunum. Svo þarf bara að gæta þess að skipta nógu oft um þerripappír því plöntur sem þorna of hægt geta orðið svartar.

Plöntupressupappír er frekar sérstakur að gerð og sérstaklega til þess fallinn að þurrka plöntur. Hann má nota út í hið óendanlega ef vel er farið með hann. Hjá Lundarháskóla þar sem ég starfa, er stranglega bannað að setja plönturnar beint á pappírinn heldur þarf að setja plönturnar milli dagblaða eða eins og ég geri, á venjulegan prentarapappír. Hér er svo pressupappírinn settur í þurrkofn eftir notkun og lítið herbergi helgað plöntupressun og því sem henni tilheyrir.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er ég í þetta sinn bara að pressa stök blöð en það er auðvitað ekki vaninn ef plöntum er safnað. Hins vegar hafa plönturnar mínar ekki enn þjónað sínum tilgangi eru því áfram í ræktun. Venjulegur prentarapappír er sýrufrír og því upplagður fyrir plöntupressun. Sömuleiðis gerir hann það auðveldara að pressa plönturnar fallega þar sem papprírinn er það sléttur og sleipur.

Með einföldum tein, í þessu tilviki steyputein, strekkir maður á reipinu til að ná góðri pressu. Svo rekur maður teininn lengra í gegn þar til hann nemur við borðið til að pressan haldist. Eins og sjá má á slitnu neðra borði þar sem reipið liggur hefur pressan verið mikið notuð.

Gróa Valgerður Ingimundardóttir
27. maí 2021