Greinasafn fyrir flokkinn: Flóruvinir

Minningarorð

Frá er fallinn okkar kæri Hörður Kristinsson, stofnandi Flóruvina.

Hörður var mikill hugsjónamaður og grasafræðingur af lífi og sál. Grasafræðina hafði hann að ævistarfi, bæði í starfi sínu við Háskóla Íslands og hjá Náttúrufræðistofnun, en að auki eyddi hann ótöldum stundum af sínum frítíma við að sinna fræðunum á einn eða annan hátt. Auk þess að hafa það sem hugsjón að safna sem mestum upplýsingum um flóru Íslands þá brann hann fyrir því að vekja áhuga sem flestra á hinu sama. 

Lesa áfram.

Ársfundur norrænu grasafræðifélaganna

Ár hvert funda stjórnarmeðlimir norrænu grasafræðifélaganna. Félögin sem um ræðir eru Sænska grasafræðifélagið (Svensk Botanisk Förening), Norska grasafræðifélagið (Norsk Botanisk Forening), Danska grasafræðifélagið (Dansk Botanisk Forening), Flóruvinir (Hið íslenska náttúrufræðifélag) og fulltrúar Finna en þar er þó ekkert formlegt grasafræðifélag.

Félögin skiptast á um að halda fundinn, Norska grasafræðifélagið stóð fyrir stafrænum fundi sem haldinn var í fyrra, Sænska grasafræðifélagið stóð fyrir fundinum í ár og á næsta ári verður fundurinn haldinn í Danmörku.

Líkt og á Íslandi, hafa ekki fundist forsendur fyrir formlegu grasafræðifélagi í Finnlandi en vonir standa til að geta stofnað þar félag í sambandi við ársfundinn í Finnlandi 2024.

Fundurinn í ár var haldinn í Uppsölum í Svíþjóð en þar rétt utan við bæinn eru húsakynni sænska félagsins. Húsakynnin eru öll hin huggulegustu og aðstaðan afbragðsgóð fyrir fundi sem þessa. Veggirnir voru m.a. skreyttir myndum úr myndasamkeppni af þjóðarblómi Svía, bláklukkunni (Campanula rotundifolia) og veggspjaldi með frímerkjum af þjóðarblóminu.

Fundurinn fór fram 29.-30. október og voru báðir dagar nokkuð þétt pakkaðir erindum um starfsemi félaganna og fréttir tengdum grasafræði í hverju landi. Fundargestir voru tólf talsins, fjórir starfsmenn SBF, tveir frá DBF, þrír frá NBF, tveir frá Finnlandi auk undirritaðrar. Félögin kynntu árangurinn af Degi hinna villtu blóma, kynntu nýtt útgefið efni, átaksverkefni og margt fleira sem ég mun kynna betur síðar.

Myndir úr myndasamkeppni með þjóðarblómi Svíþjóðar, eins og sjá má var keppt í mismunandi flokkum (ljósmyndum, stafrænni list og myndskreytingum). Þessar hanga inni á setustofu sænska grasafræðifélagsins.

Frímerki sem Postnord gaf út í ár með ýmsum ástkærum tegundum í tilefni nýja þjóðarblómsins. Þarna getur að líta þrenningarfjólu, hóffífil og sjöstjörnu svo þær fyrstu séu nefndar.

Fleiri myndir frá myndasamkeppninni í setustofu félagsins. Tveir kraftmiklir fulltrúar norska grasafræðifélagsins sjást hér í mynd, þau Rebekka og Anders.

Carl von Linné, sem kom á tvínafnakerfinu, bjó og starfaði lengst af í Uppsölum. Hann fór m.a. með nemendur sína í langa göngutúra og hér getur að líta eina af þeim leiðum sem hann notaði.

Flóruvinir komnir úr óheppilegu sumarleyfi

Því miður þurfti starfsemi Flóruvina að liggja í láðinni yfir sumarið en fór þó aftur í gang í rólegheitunum í síðasta mánuði, passlega þegar flest var sölnað fyrir veturinn. Facebook hópur Flóruvina hélt þó áfram að vaxa en þarf nú örlítið fastari tök þar sem einhver tröll voru farin að vaða þar uppi með efni sem ekkert hafði með plöntur að gera. Það horfir þó allt til betri vegar!

Eitt fyrsta verk eftir leyfið var annars vegar að herða á stillingum í Flóruvinahópnum á Facebook en því næst var það ársfundur norrænu grasafræðifélaganna og verður nánar greint frá honum næstu daga.

Hins vegar er engin ástæða til að hætta að sinna grasafræðinni þó kominn sé vetur, samanber meðfylgjandi mynd sem var tekin fyrir sléttum 13 árum á Reyðarfirði!

Krossfífill (Senecio vulgaris) á Reyðarfirði þann 9. nóvember 2009.

Ársskýrsla Flóruvina fyrir árið 2021

Formaður Flóruvina á árinu var Gróa Valgerður Ingimundardóttir en að auki sátu í nefndinni Hörður Kristinsson, Pawel Wasowicz, Snorri Sigurðsson og Starri Heiðmarsson.

Á árinu dafnaði Facebook hópur Flóruvina og er fjöldi félaga í hópnum kominn vel yfir 3000. Hópurinn er virkur allt árið um kring og var sérstaklega skemmtilegt tímabil þar sem fólk lagði upp myndir af visnuðum plöntum yfir vetrarmánuðina og að sjálfsögðu voru þær tegundagreindar. Stjórn Flóruvina stýrir Facebook hópnum en fjöldi fólks heldur virkninni upp, deilir myndum og greinir tegundir af miklum móð. Flóruvinir lögðu m.a.s. af mörkum upplýsingar þónokkra fundarstaði fyrir stormþul. Við höfum þó lítið unnið með Facebook síðu Flóruvina á árinu en fylgjendur þar eru tæp 500 talsins.

Snorri og Gróa sátu sameiginlegan fjarfund grasafræðifélaga Norðurlandanna þann 14. febrúar 2021. Þar greindu fulltrúar félagann frá starfinu á starfssvæðinu: Degi hinna villtu blóma, fræsöfnun, endurheimt votlendis, kortlagningu tegunda, plöntugreiningarnámskeiðum og baráttunni gegn ágengum tegundum. Það var mjög áhugavert að kynnast mismunandi áherslum landanna, sérstaklega hvað snerti ágengar tegundir en þar virðist umræðan á Íslandi eiga nokkuð langt í land í samanburði við nágranna okkar.

Dagur hinna villtu blóma er orðinn fastur liður á hverju sumri og þó hann eigi að falla á þriðja sunnudag júnímánaðar þá er tíðarfar og veðurskilyrði annars eðlis en á hinum Norðurlöndunum. Því var það að plöntuskoðunarferðir voru haldnar undir nafni dagsins nokkuð fram eftir sumri. Nokkrir aðilar hafa það sem fastan punkt að standa fyrir göngu en það er Grasagarður Reykjavíkur, Náttúrustofa Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Ein ferð var skipulögð sem einkaframtak í gegnum Flóruvini en fyrir henni stóðu Kristín Stefánsdóttir og Þórunn Kristjánsdóttir í Flóa.

Pawel stóð fyrir Sumarátaki Flóruvina en það gerði fólki kleift að skrá þær tegundir sem það fann á ferðum sínum um landið og koma þeim beint í gagnagrunn í gegnum internetið. Ætlunin var að leggja okkar að mörkum við að fækka þeim reitum á landinu sem eru vanskráðir. Áður fyrr voru notuð skráningaspjöld í sama tilgangi. Verkefnið var vel kynnt og mættu Pawel og Starri í viðtal á morgunútvarpi Rásar 2 í júníbyrjun. Því miður varð þó enginn árangur af átakinu og það má spyrja sig hvort nútíminn kalli á app í símann svo árangur geti náðst eða hvort svona átak henti betur fyrir útvaldar tegundir.

Að lokum má nefna að Snorri mætti fyrir hönd Flóruvina í viðtal í þáttinn Sumarmál á Rás 1 og hélt að auki fræðsluerindi fyrir Oddfellow í Garðabæ.

Fyrir hönd faghóps Flóruvina,
Gróa Valgerður Ingimundardóttir