Lifandi steingervingar!

Ágætu félagsmenn Hins íslenska náttúrufræðifélags, fyrsta fræðsluerindi vetrarins verður mánudaginn 24. september n.k. og hefst það kl. 17:15 í, vel að merkja, stofu 158, í VRII húsi Háskólans, en ekki í Öskju eins og verið hefur. Það er Bjarni Kristófer Kristjánsson sem ríður á vaðið með erindi sem hann nefnir „Íslenskar grunnvatnsmarflær: Lifandi steingervingar?“

Tvær tegundir grunnvatnsmarflóa hafa fundist á Íslandi. Báðar eru tegundirnar einlendar fyrir Ísland og er önnur tegundanna af nýrri ætt marflóa. Líklegt er að þessar marflær hafi lifað af kuldaskeið ísaldar í grunnvatni undir jökulísnum.

Grunnvatnsmarflær eiga erfitt með að ferðast á milli grunnvatnssvæða t.d. með mönnum eða fuglum og þær hafa ekki sviflirfur. Því er líklegt að þær hafi borist hingað til lands þegar grunnvatn á Íslandi var í tengingu við grunnvatn á meginlöndunum. Ísland og forveri þess fylgdu reki heita reitsins undir landinu, en heiti reiturinn var undir austurströnd Grænlands fyrir um 40 milljónum ára og hefur síðan þá myndað Íslands-Grænlands- Færeyjahrygginn. Gæti því verið að hér sé um að ræða mjög gamlar tegundir lífvera, sannkallaða lifandi steingervinga.

Munið nýjan fundarstað í stofu 158, VRII húsi Háskóla Íslands.