Færslusafn fyrir flokkinn: Fréttir

Flóruvinir

Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags hefur ákveðið að taka opnum örmum á móti starfsemi sem fram til þessa hefur fallið undir Flóruvini, samstarfshóp sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á íslensku flórunni. Hópurinn var stofnaður af Herði Kristinssyni árið 1998 og hafði það að markmiði „að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða aðra flóruvini við greiningar á plöntum“. Þessi markmið eru í fullu samræmi við lög HÍN þar sem segir að tilgangur félagsins sé að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Í samræmi við lögin er því tilgangur nefndarinnar að glæða áhuga og auka þekkingu manna á flóru Íslands.

Starfið er vissulega í mótun en nokkrir fastir þættir eru þó til staðar. Við teljum rétt að lögð sé áhersla á að vinna neðangreind atriði í ár, koma starfinu í fastar skorður og safna hugmyndum í sarpinn fyrir komandi ár. Hins vegar ef frjóir hugar koma að nefndinni og aldrei að vita hverju er hægt að hrinda í framkvæmd fyrr! Félagsmenn sem eru áhugasamir um að taka þátt í starfinu, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við nefndina. Einu skilyrðin er vilji til að nota fjarfundabúnað, síma eða tölvupóstsamskipti til samstarfs; og áhugi á að vinna að markmiðum nefndarinnar. Mikil þekking á flóru landsins er ekki krafa!

Í nefndinni sitja nú Gróa Valgerður Ingimundardóttir (groa.valgerdur@gmail.com), Starri Heiðmarsson (starri@ni.is) og Snorri Sigurðsson (snorkur@gmail.com); Gróa er búsett í Svíþjóð, Snorri í Reykjavík og Starri í Eyjafirði svo búseta er engin hindrun!

Dagur hinna villtu blóma

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir þriðja sunnudaginn í júní. Ýmsir aðilar, bæði einstaklingar og náttúrustofur svo dæmi séu tekin, hafa komið að skipulagi þessara gönguferða síðustu ár og er vonast til að nefndin geti í samstarfi við þá sinnt því hlutverki að hafa yfirsýn, sjá um samhæfingu og hjálpa til við kynningu.

Norrænt samstarf

Í nágrannalöndunum er öflugt starf fjölmargra grasafræðifélaga en þessi félög hafa stutt við bakið á okkur frændum sínum. Árlega er haldinn sameiginlegur fundur megin grasafræðifélaga hvers lands og hafa bæði Hörður og Gróa sótt þessa fundi þegar kostur hefur gefist. Stefnt er á að halda uppteknu samstarfi, efla það og hafa það sem yfirlýst hlutverk nefndarinnar að sinna því.

Samfélagsmiðlar

Á Facebook hafa Flóruvinir sömuleiðis verið með líflegan hóp og nú nýverið síðu að auki. Hópurinn er opinn og er fyrst og fremst ætlaður þeim sem áhuga hafa á að deila myndum sínum af íslenskum plöntum eða vantar aðstoð við tegundagreiningu. Flóruvina síðan á Facebook var stofnuð með það í huga að auðvelda utanumhald um hópinn en nú þegar Flóruvinir eru komnir undir HÍN verður e.t.v. þörfin á tilvist síðunnar endurskoðuð. Nefndin mun hafa það að hlutverki að deila fróðleik um flóru Íslands í gegnum Facebook á fyrrgreindan máta, ritstýra umræðu í hópnum og eftir bestu getu sjá til þess að meðlimir fái réttar upplýsingar, ekki síst þegar kemur að tegundargreiningu. Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að Facebook hópurinn er ekki vettvangur fyrir áróður af neinu tagi.

Vefsíða

Stefnt er á að gefa heimasíðu HÍN andlitslyftingu sem um ræðir á árinu. Á nýrri síðu er stefnan að flóruvinanefndin eigi sitt svæði þar sem verður haldið utan um upplýsingar og fróðleik tengdan starfinu.

Sérsviðadeildir innan félagsins

Samkvæmt lögum Hins íslenska náttúrufræðifélags er tilgangur þess að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Eins og heyra má er um að ræða breytt svið og því er full þörf á að virkja félagsmenn innan mismunandi áhugasviða til að efla hvert sérsvið fyrir sig. Í lögum félagsins stendur einnig að stjórn þess geti tilnefnt nefndir og ráð til að sinna tilteknum verkefnum. Á fundi sínum þann 3. mars síðastliðinn, samþykkti stjórnin að nýta sér þennan möguleika en áhugamannahópurinn Flóruvinir höfðu áður sýnt því áhuga að fella starf sitt undir félagið með þessum hætti. Það er von stjórnar að mjór sé mikils vísir og að forsendur séu fyrir fleiri deildum af þessu tagi, með mismunandi sérsvið.

Fyrirkomulag deildastarfs er með þeim hætti að stjórn velur nefndarformann sem síðan fær með sér tvo til fimm aðra úr félaginu til að vinna að málefnum deildarinnar, eftir því sem þurfa þykir. Áhugasamir félagsmenn, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við stjórn félagsins ef þeir hafa áhuga á að taka þátt í starfi sem þessu, hvort sem það er til að stofna nýja deild eða nefnd á sínu áhugasviði eða sitja í stjórn Flórudeild félagsins. Í nefndum sínum geta nefndarmenn að sjálfsögðu gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn þegar kemur að því að finna spennandi leiðir til að efla áhuga og þekkingu fólks á sérsviði sinnar nefndar. Sem dæmi má þó nefnda að starfsemi deilda getur falið í sér skoðunarferðir, efni á heimasíðu félagsins, umsjón hópa á Facebook, námskeið, ljósmyndakeppnir o.s.frv.

Stjórn HÍN 2020

Fræbelgir fjörukáls á Spánarströnd, heldur súrir á svip. Mynd: GVI

Á aðalfundi HÍN þann 24. febrúar voru þrír sem gengu úr stjórn. Það voru þau Margrét Hugadóttir ritari (2017-2019), Sveinbjörg Hlíf Gunnarsdóttir fræðslustjóri (2018-2019) og Jóhann Þórsson félagsvörður (2016-2019). Við kunnum þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir þeirra störf!

Ester Rut Unnsteinsdóttir var endurkjörin í formannssætið og Snæbjörn Guðmundsson sem gjaldkeri. Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi voru endurkjörnar í stjórn 2019 og halda því báðar áfram með tveggja ára kjörtímabil sín. Það er full ástæða til að þakka þeim öllum störf þeirra síðustu ár og fyrir að ætla að halda áfram sínu góða starfi!

Í stjórn félagsins voru kosnir þrír nýir stjórnarmenn: Helena Óladóttir kynningarstjóri, Anna Heiða Ólafsdóttir félagsvörður og Gróa Valgerður Ingimundardóttir ritari sem er kosin til eins árs til prufu þar sem hún er búsett erlendis, hinar voru kosnar til tveggja ára eins og venja er. Helena er umhverfisfræðingur og kennari að mennt. Hún hefur starfað á vettvangi umhverfismála frá því hún lauk meistaraprófi frá HÍ 2005. Hún vann að innleiðingu sjálfbærni í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar, hefur starfað að umhverfis- og gæðastjórnun ásamt ráðgjöf um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Helena hefur kennt við Menntavísindasvið HÍ síðan 2016. Anna er fiskifræðingur á uppsjávarlífríkissvið Hafrannsóknastofnunar. Hún lærði fiskifræði við Memorial Háskóla á Nýfundnalandi, Kanada, og lauk þaðan bæði masters- og doktorsprófi. Frá Kanada lá leið hennar til Færeyja þar sem hún vann á færeysku hafrannsóknastofnuninni í nokkur ár áður en hún fluttist aftur til Íslands. Gróa Valgerður er í doktorsnámi í flokkunarfræði plantna við Lundarháskóla í Svíþjóð. Áður en hún flutti til Svíþjóðar 2011 vann hún hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og þar áður hjá Líffræðistofnun

Staða þekkingar um fiskeldi í sjó – Málstofa

Fræðslufundur HÍN, mánudaginn 25. mars 2019 verður í formi málstofu og hefst fundurinn kl. 17.15. Málstofan fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Umræðuefnið er fiskeldi í sjó og markmiðið er að kynna  stöðu þekkingar um hugsanleg áhrif fiskeldis á umhverfið. Til fundarins munu koma vísindamenn á sviði líffræði og hafefnafræði með  víðtæka þekkingu, bæði sem fyrirlesarar, fulltrúar á pallborði og sem sérfræðingar í sal. Ekki er leitað eftir afstöðu fræðimanna til málaflokksins heldur er fyrst og fremst boðið upp á upplýsingar, fróðleik og tækifæri til umræðna.

Flutt verða þrjú stutt kynningarerindi en síðan verða umræður á pallborði og úr sal.   Málstofan tekur tvær klukkustundir í heildina. Þetta verður því knappur en fyrst og fremst upplýsandi og spennandi fræðslufundur.

Erindi

 • Leó Alexander Guðmundsson, erfðafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
 • Sólveig Rósa Ólafsdóttir, hafefnafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
 • Árni Kristmundsson, sníkjudýrasérfræðingur á Keldum.

Á pallborði munu sitja:

  • Þorleifur Eiríksson, RORUM
  • Rakel Guðmundsdóttir, Hafrannsóknastofnun
  • Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Fræðasetur Háskóla Íslands, Vestfjörðum
  • Skúli Skúlason, Háskólinn á Hólum
  • Stefán Óli Steingrímsson, Háskólinn á Hólum
  • Erna Karen Óskarsdóttir, Mast

Fundarstjóri er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar að loknum fundi.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Stjórn HÍN

Frá aðalfundi HÍN 2019

Aðalfundur HÍN var haldinn mánudaginn 25. febrúar 2019 í Öskju, Náttúrfræðahúsi Háskóla Íslands.

Í stjórn félagsins var endurkjörinn þrír stjórnarmenn sem voru að ljúka öðru starfsári fyrir félagið, en það voru Hrefna Sigurjónsdóttir, Margrét Hugadóttir og Bryndís Marteinsdóttir. Steinþór Níelsson gjaldkeri ákvað að láta af stjórn vegna anna en hann á eftir ár í stjórnarsetu. Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur var kosin í stjórn í eitt ár í hans stað. Einn stjórnarmaður, Jóhann Þórsson ásamt Esteri Rut Unnsteinsdóttur formanni sitja áfram næsta kjörtímabil.

Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar mun stjórnin skipta með sér verkum. Undir tenglinum Um félagið hér að ofan til vinstri má finna upplýsingar um núverandi stjórn HÍN.

Hjörtur Marteinsson og Guðbjörg Lind Jónsdóttir komu á fundinn til að segja frá bók sem er skrifuð af Stefáni Stefánssyni sem kennslubók um gróðurríki Íslands fyrir skólapilta í Möðruvallaskóla veturinn 1890-1891. Þau afhentuda stjórn HÍN bókina formlega til eignar. Ester Rut, formaður tók við bókinni og þakkaði kærlega fyrir.

 

Aðalfundur HÍN og Flóra Íslands

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 25. febrúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar verður bókin Flóra Íslands kynnt.  Hún kom út núna fyrir jólin og eru höfundar Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir.  Erindið flytja þau Þóra og Jón Baldur og hefst það kl. 17:15.  Allir eru velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins.
Aðalfundarstörf hefjast að því loknu, kl. 18:15.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:

 • Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
 • Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
 • Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
 • Önnur mál.

Stjórn HÍN skipa nú eftirtaldir: Ester Rut Unnsteinsdóttir formaður, Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður, Margrét Hugadóttir ritari, Steinþór Níelsson gjaldkeri, Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir fræðslustjóri, Jóhann Þórsson félagsvörður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi.

Almennir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sem og formaður.  Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna er nú á enda og er nú kosið um þessi embætti.  Þetta eru embætti Hrefnu Sigurjónsdóttur, Bryndísar Marteinsdóttur og Margrétar Hugadóttur. Auk þeirra þá hafa Steinþór og Sveinborg óskað eftir að láta af stjórnarmennsku.

 

Heimsókn á sýningu Náttúruminjasafnsins

Í stað þess að haldið væri hefðbundið fræðsluerindi í desember var félögum boðið að heimsækja nýopnaða sýningu Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru íslands í Perlunni. Þar tóku á móti okkur forstöðumaður safnsins, Hilmar Malmquist og Álfheiður Ingadóttir ritstjóri. Hilmar hélt erindi þar sem stiklað var á stóru í sögu sýningarinnar og bauð fólkið velkomið. Hann og Álfheiður veittu svo gestum leiðsögn um sýninguna og svöruðu spurningum og í lokin var boðið upp á veitingar. Góð mæting var á viðburðinn og virtust félagar almennt hafa ánægju af sýningunni og að hittast á þessum vettvangi. Við þökkum þeim Hilmari og Álfheiði fyrir góðar móttökur og óskum okkur öllum til hamingju með glæsilega sýningu.