Náttúrufræði Grunnavíkur-Jóns gefin út

Ritið Náttúrufræði. Steinafræði – Fiskafræði eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík var nýlega gefið út á vegum Góðvina Grunnavíkur-Jóns. Jón samdi verkið um um 1737 og hefur það ekki birst áður. Af þessari útgáfu er mikill fengur í menningar- og náttúrusögulegu ljósi.

Nýlega kom út ritið Náttúrufræði eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Jón var ritari Árna Magnússonar handritasafnara og síðar styrkþegi Árnasjóðs í Kaupmannahöfn. Jón Ólafsson var fjölfræðingur og lét sér fátt óviðkomandi. Eftir hann liggja óprentuð rit og ritgerðir um marvíslegustu efni og meðal þeirra voru ritgerðirnar tvær, Fiskafræði og Steinafræði, sem Jón samdi um 1737 og birtast nú í fyrsta sinn. Ætlun Jóns var að skrifa heildarverk um íslenska náttúru og stefndi hann m.a. að ritgerðum um fugla og jurtir sem báðar munu nú glataðar.

Góðvinir Grunnavíkur-Jóns standa að útgáfunni og er Náttúrufræðin fjórða ritið sem gefið hefur verið út á vegum félagsins. Að útgáfu Náttúrufræðinnar unnu Þóra Björk Hjartardóttir og Guðrún Kvaran. Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur ritar inngang að Fiskafræðinni og skýringar við sama rit og Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur skrifar um Steinafræðina.

Bókin verður til sölu í Bóksölu stúdenta við Hringbraut og hjá Sögufélaginu í Fischersundi.