Ný stjórn HÍN var kosin á aðalfundi HÍN laugardaginn 27. febrúar s.l. og hana mynda Árni Hjartarson formaður (Íslenskum orkurannsóknum, Reykjavík), Esther Ruth Guðmundsdóttir varaformaður (Jarðvísindastofnun Háskólans, Reykjavík), Hilmar J. Malmquist ritari (Náttúrufræðistofu Kópavogs, Kópavogi), Kristinn J. Albertsson gjaldkeri (Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri), Jóhann Þórsson meðstjórnandi og félagsvörður (Landgræðslu Ríkisins, Hellu), Rannveig Guicharnaud meðstjórnandi og fulltrúi stjórnar í ritstjórn Náttúrufræðingsins (Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjavík) og Ester Ýr Jónsdóttir meðstjórnandi og fræðslustjóri (Fjölbrautaskóla Suðurlands, Selfossi).
Á aðalfundi HÍN laugardaginn 27. febrúar s.l. varð töluverð endurnýjun í stjórn félagsins. Þá létu af störfum þrír stjórnarmenn sem sinnt hafa félaginu dyggilega í langa hríð og í staðinn voru kjörnir þrír nýir stjórnarmenn.
Þeir sem létu af störfum voru Kristín Svavarsdóttir, fráfarandi formaður, Droplaug Ólafsdóttir og Helgi Guðmundsson. Kristín gegndi formannsstarfinu í heil átta ár, sem er þriðja lengsta formannsseta í sögu félagsins. Einungis Bjarni Sæmundsson og Freysteinn Sigurðsson hafa gengt formannsembættinu lengur en Kristín, Bjarni í 35 ár og Freysteinn í 11 ár. Droplaug og Helgi lögðu einnig sitt af mörkum til félagsins með langri þjónustu – Droplaug í átta ár og Helgi í tæp 20 ár! Hilmar J. Malmquist, ritari félagsins, þakkaði þremenningunum fyrir ötult og vandað starf og færði þeim í þakkarskyni í nafni félagsins blómavönd og smágjöf.
Nýir stjórnarmenn voru kjörnir þau Árni Hjartarson, Jóhann Þórsson og Rannveig Guicharnaud. Kristinn J. Albertsson gaf kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn og hlaut hann rússneska kosningu. Frá fyrra stjórnarkjöri sátu áfram þau Esther Ruth Guðmundsdóttir, Ester Ýr Jónsdóttir og Hilmar J. Malmquist.
Skýrslu stjórnar fyrir árið 2009 má lesa hér.
Kristinn J. Albertsson gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins á árinu 2009. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða með öllum atkvæðum.
Á aðalfundinum voru samþykktar tvær ályktanir. Önnur ályktunin er um Náttúruminjasafn Íslands, sem má lesa hér, og hin um Náttúrufræðinginn og áskrift opinberra aðila, sem má lesa hér.