Veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar við Ísland

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. mars 2010 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er dr. Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur við Hafrannsóknarstofnunina, sem flytur erindi sem hann nefnir „Veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar við Ísland“.

Ágrip af erindi dr. Ólafs S. Ástþórssonar sjávarlíffræðings, haldið mánudaginn 29. mars 2010.

„Á jaðarsvæðum heitra og kaldra sjógerða líkt og á hafsvæðinu við Ísland hafa umhverfisskilyrði veruleg áhrif á lífríki sjávar. Í hafinu umhverfis Ísland og á nálægum hafsvæðum í Norður Atlantshafi hafa á seinustu 100 árum verið áberandi hlýviðrisskeið á árunum 1925-1945, kuldaskeið á árunum 1965-1971 og hlýviðrisskeið frá 1996 til dagsins í dag. Í erindinu verður vikið að straumakerfi og langtímasveiflum í umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland og á hvern hátt veðurfar getur haft áhrif á lífverur sjávar. Þá verður greint frá því sem vitað er um breytingar á lífríki sjávar frá hlýjum árum milli 1925-1945 og frá köldum árum milli 1965-1971. Loks verður fjallað um þær breytingar á lífríkinu í sjónum við Ísland sem tengja má hlýnuninni síðan 1996. Frá seinasta tímabilinu er vitneskjan ítarlegust og á því hafa m.a. orðið verulegar tilfærslur í útbreiðslu og stofnstærðum margra hryggleysingja, nytjafiska og sjaldséðra fisktegunda, sjófugla og spendýra. Þá hafa á undanförunum árum fundist við landið margar nýjar tegundir bæði fiska og hryggleysingja sem greint verður frá.“

20100322151334977962Ólafur S. Ástþórsson er fæddur 1952. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D.-prófi í sjávarlíffræði frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi 1980. Ólafur hefur starfað á Hafrannsóknastofnuninni síðan 1980 sem sérfræðingur við dýrasvifsrannsóknir, sviðsstjóri á sjó- og vistfræðisviði og sem aðstoðarforstjóri.