Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. apríl 2010 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er dr. Erpur Snær Hansen, líffræðingur við Náttúrustofu Suðurlands, sem flytur erindi sem hann nefnir „Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja“.
Ágrip af erindi Dr. Erps S. Hansen líffræðings, haldið mánudaginn 26. apríl 2010.
„Hlýskeið í sjónum sunnan og suðaustan við Ísland hófst 1996, metveiði í lunda var 1998 en síðan hefur veiðin verið á niðurleið. Samskonar mynstur er einnig að finna í lundaveiði í Færeyjum. Á síðustu 20 árum hefur orðið stofnhrun í sjófuglastofnum sem éta sandsíli við Ísland og Færeyjar. Varpárangur lunda í Vestmanneyjum hefur t.d. verið slæmur a.m.k. síðan 2005 sem tengdur er mikilli fækkun í sandsílastofninum. Í erindinu eru kynntar niðurstöður samstarfsverkefnis sem beinist að skýringum á gagnvirkum breytingum milli lunda- og sandsílastofnanna við Vestmannaeyjar. Ábúðarhlutfall, varpárangur, tímasetning varps og aldurshlutföll lunda í veiði hafa verið vöktuð síðan 2007 og verða niðurstöður skýrðar. Fjallað verður um tilgátuna um að lundaveiði endurspegli „fæðubundna átthagatryggð ungfugla“ eða magni 1-árs síla. Þessi tilgáta býður m.a. upp á túlkanir á langri lundaveiðisögu í samhengi við hafrænar breytingar fyrr og nú. Einnig verður fjallað stuttlega um yfirstandandi úrvinnslu á lífslíkum og árgangahlutföllum lunda byggt á merkingagögnum frá 1953.“
Erpur Snær Hansen er fæddur 1966. Hann lauk B.S. námi 1993 og 4. árs námi í líffræði 1995 við Háskóla Íslands, M.S.- 1998 og Ph.D. námi 2003 í vist-, þróunar- og flokkunarfræði frá ríkisháskólanum í Missouri, St.-Louis. Erpur hóf störf við Náttúrustofu Suðurlands 2007 sem sviðsstjóri vistfræðirannsókna. Rannsóknir Erps hafa beinst að sjófuglum um árabil, sérstaklega í Vestmannaeyjum.