Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. september 2010 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er dr. Rannveig Anna Guicharnaud, jarðvegsfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem flytur erindi sem hún nefnir „Flúorvöktun í gróðri og jarðvegi í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli“.
Ágrip af erindi
„Inngangur
Áhyggjur vegna flúormengunar í jarðvegi og gróðri hófust fljótlega á fyrstu dögum eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta var fyrst og fremst vegna hárra flúorgilda í ösku samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Í gegnum eldgosasögu Íslands hefur flúormengun oft verið töluvert vandamál sem afleiðing eldgosa og má þar helst nefna gosin í Lakagígum 1783-1784, í Eyjafjallajökli 1822 og Heklu 1970 svo fátt eitt sé nefnt. Í frásögn Helga Óla, Grafið úr gleymsku má meðal annars lesa nokkuð nákvæmar lýsingar af gaddi í skepnum sem kom í ljós ekki löngu eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli árið 1822. „Þótt heyfengur yrði allmikill voru heyin mjög óhollt fóður vegna öskunnar sem í þeim var, svo að kýr fóðruðust illa…. Kom bólga í liðamót á fótum og frauðlíkir hnúðar á fótleggi og kjálka“.
Efni og aðferðir
Þremur vikum eftir að gosið í Eyjafjallajökli hófst var því hafist handa við skipulag reglubundinnar sýnatöku. Sýnatökustaðir voru ákvarðaðir í samráði við ráðunauta Búnaðarsambands Suðurlands sem einnig tóku virkan þátt í sýnatöku. Alls urðu 12 bæir fyrir valinu sem spönnuðu áhrifasvæði eldgossins, 2 sýnatökustaðir utan sýnatökusvæðis voru notaðir sem viðmiðunarreitir. Gróðursýni voru tekin vikulega á fyrstu stigum gossins og á tveggja vikna fresti í samræmi við lækkandi gildi í grassýnum af túnum bænda. Jarðvegssýni voru einnig tekin af túnum til að meta uppsöfnun flúors í jarðvegi en grasbítar geta innbyrt tölvuvert magn af jarðvegi við inntöku á grasi. Áhrif ösku á líffræðilega og efnafræðilega þætti jarðvegs voru einnig könnuð.
Niðurstöður
Flúorstyrkur mældist langt yfir viðmiðunarmörkum fyrir sauðfé, hross og nautgripi allan maí mánuð en fór minnkandi það sem eftir lifði sumars og er nú langt fyrir neðan ráðlögð viðmiðunarmörk.
Flúorstyrkur þynnist hratt út í plöntum í jöfnu hlutfalli við vöxt þeirra. Flúor skolaðist jafnan hratt af yfirborði plantna.
Um 50%-90% af þeim flúor sem skolaðist niður í jarðveg varð eftir í jarðveginum og mun að öllum líkindum skolast hægt úr jarðvegi í grunnvatn og styrkur mun ólíklega ná hættulegum gildum.
Við langvarandi úrkomu (samkvæmt staðlaðri tilraun inn á rannsóknastofu) mun sýrustig jarðvegs lækka og losun súlfats og flúors úr jarðvegi aukast. Askan virtist einnig almennt hafa jákvæð áhrif á lífmassa og örveruvirkni jarðvegsins.“
Rannveig Anna Guicharnaud lauk B.S. námi 2002 frá Háskóla Íslands, M.Sc. árið 2004 og PhD árið 2009 frá University of Aberdeen í Skotlandi. Rannveig hefur starfað við Landbúnaðarháskóla Íslands frá árinu 2007.