Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. október 2010 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er dr. Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, sem flytur erindi sem hann nefnir „Komur hvítabjarna til Íslands á undanförnum árum. Hvernig brugðumst við þeim? Hvað höfum við lært?“.
Ágrip af erindi
„Í júnímánuði árið 2008 gengu tveir hvítabirnir á land í Skagafirði og sá þriðji gekk á land í Þistilfirði í janúar árið 2010. Sá fyrri sem gekk á land í Skagafirði sást fyrst við Miðmundarfjall við Þverárfjallsveg þann 3. júní og sá síðari þann 16. júní við bæinn Hraun II á utanverðum Skaga. Hvítabjörninn sem gekk á land í Þistilfirði sást fyrst við bæinn Sævarland 27. janúar. Í öllum þessum tilfellum voru birnirnir í miklu návígi við fólk. Þessar hvítabjarnarkomur vöktu mikla athygli og oft hörð viðbrögð bæði innanlands og utan, kannski ekki síst vegna þess að dýrin voru öll felld. Rétt um 20 ár voru liðin síðan hvítabjörn gekk síðast á land á Íslandi í Haganesvík í Fljótum í Skagafirði árið 1988. Sá björn var einnig felldur.
Frá því að fyrsti hvítabjörninn kom á land árið 2008 hefur farið fram mikil umræða á Íslandi um viðbrögð vegna komu þeirra og hvernig við eigum að bregðast við. Í því máli eru mjög skiptar skoðanir. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp sem fór yfir viðbrögð vegna landgöngu hvítabjarna fljótlega eftir að síðari björninn kom til landsins 2008. Niðurstaða starfshópsins, sem byggð er á áliti 16 innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði hvítabjarnarfræða, er að skynsamlegast sé að fella þá hvítabirni sem til landsins koma miðað við öryggissjónarmið, stofnstærðarsjónarmið og kostnað við björgunaraðgerðir. Í dag eru í gildi lög frá árinu 1994 þar sem hvítabirnir eru friðaðir á Íslandi og er lagt bann við veiðum á hvítabjörnum á sundi eða á hafís. Heimilt er þó í þeim lögum að fella hvítabirni ef þeir ógna fólki eða búfénaði. Til þess að framfylgja niðurstöðu starfshópsins þarf því að breyta lögunum.“
Í fyrirlestrinum mun Þorsteinn fara yfir atburðarásina í tengslum við komu hvítabjarnanna til landsins og aðkomu starfsmanna Náttúrustofu Norðurlands vestra að henni. Hann mun einnig fjalla um ástand hvítabjarnanna og velta upp nokkrum spurningum um framtíð þessara mála hér á landi.
Þorsteinn Sæmundsson er fæddur í Reykjavík árið 1963. Hann lauk B.S. námi og 4-árs prófi í jarðfræði frá Háskóla Ísland árið 1988. Árið 1992 lauk hann Fil.lic prófi í Ísaldarjarðfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og Fil.Dr. prófi í Ísaldarjarðfræði frá sama háskóla árið 1995. Frá 1995 til 1999 vann Þorsteinn sem sérfræðingur á snjóflóadeild Veðurstofu Íslands en frá árinu 2000 hefur hann starfað sem forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Rannsóknir Þorsteins hafa spannað hin ýmsu fræðasvið og má þar nefna rannsóknir á ofanflóðum, ísaldarjarðfræði landsins og sífreramyndunum á Íslandi.