Aðalfundur HÍN 2016!

Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldinn í þjóðminjasafninu laugardaginn 27. febrúar n.k. og hefst fundurinn kl. 14.00. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf eins og lýst er í lögum félagsins: 1. Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári; 2. Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar; 3. Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga, og 4. Önnur mál.

Áður en aðalfundarstörf hefjast mun Sveinn Runólfsson, Landgræðslustjóri , flytja erindi sem hann nefnir Þjóðargjöfin 1974 – 1979: greiddum við skuldina við landið?

Ráðgert er að erindi Sveins verði 30 mín. langt. Aðalfundarstörf hefjast kl. 14.45. Gert er ráð fyrir að fundi ljúki upp úr kl. 16.

20160210195156273627

20160210195155740062Útdráttur erindis Sveins Runólfssonar á aðalfundi HÍN árið 2016

Þjóðargjöfin 1974 – 1979: greiddum við skuldina við landið?

Þegar Alþingi kom saman á Þingvöllum 17. júní 1974 var samþykkt sérstök fjárveiting sem nefnd var Þjóðargjöfin. Þessari fjárveitingu var ætlað að greiða skuld þjóðarinnar við landið, en búseta frá landnámstíð hafði sannarlega haft í för með sér gróður- og jarðvegseyðingu umfram það sem náttúruhamfarir ollu frá landnámi. Á 1100 ára afmæli landnámsins var talið rétt að bæta sárin.

Með fjárveitingunni átti að framkvæma fimm ára Landgræðsluáætlun undir verkstjórn Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Auk þessa fengu samtökin Landvernd og Búnaðarfélag Íslands hluta af þessu fé.

Stærsta verkefni Þjóðargjafarinnar var að friða land með því að girða það og verja fyrir ágangi grasbíta – einkum sauðfjár. Dreifing áburðar og grasfræs voru líka umfangsmiklir liðir. Almennt má segja að Þjóðargjöfin hafi haft mikla þýðingu í verndun lands og endurheimt landsgæða. Þekking almennings á málum landnýtingar, landverndar og landgræðslu jókst mikið frá því sem áður var. Gjörbylting varð í ræktun og meðhöndlun innlends fræs til landgræðslu. Á þessum árum hófst árangursrík samvinna við bændur og sveitarfélög.

Áfangasigrar unnust í skógrækt og Þjóðargjöfin leiddi til margvíslegra rannsókna. Stóru beitartilraunirnar voru þeirra umfangsmestar. Á þessum árum réðst ungt fólk til starfa sem síðan hafa leitt margvíslegt rannsóknastarf á sviði landgræðslu og landbóta.