Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 21. mars 2016 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er vistfræðingurinn Tómas Grétar Gunnarsson sem flytur erindi sem hann nefnir Áhrif búsvæða á einstaklinga og lýðfræði farfugla.
Ágrip af erindi
„Breytileiki í árangri einstaklinga hefur bæði áhrif á ferla þróunar og á lýðfræði stofna. Munur á gæðum búsvæða er ein helsta uppspretta breytileika milli einstaklinga en gæði búsvæða eru fjölbreytt, bæði í tíma og rúmi. Farfuglar nota stærri svæði en flestar aðrar lífverur en þúsundir kílómetra skilja oft að vetrar- og varpstöðvar. Gæði búsvæða eru mismunandi, bæði að sumri og vetri og aðstæður sem einstaklingar upplifa á einni árstíð geta haft afleiðingar seinna og á fjarlægum stöðum. Íslenskir jaðrakanar hafa verið rannsakaðir um árabil, bæði á varp- og vetrarstöðvum og fylgst hefur verið með fjölda fugla árið um kring. Jaðrakönum hefur fjölgað og stofninn hefur breiðst út í verri búsvæði bæði á vetri og sumri. Í erindinu verður sagt frá hvernig þessi breytileiki í búsvæðum tengist árangri einstaklinga og hvernig atburðir á varp- og vetrarstöðvum tengjast. Einnig verður sagt frá hvernig þekking á árstíðatengslum nýtist til að skýra mun milli einstaklinga, t.d. á fartíma og útlitseiginleikum.“
Tómas Grétar Gunnarsson (f. 1974) er doktor í vistfræði og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir á fuglastofnum, einkum íslenskum vaðfuglum.