Aðalfundur HÍN 2018

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 26. febrúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar flytur Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum erindi undir heitinu „Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum“. Dagskráin hefst kl. 17:15 með erindi Guðbjargar Ástu en aðalfundarstörf hefjast að því loknu kl. 18:15. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:
– Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
– Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
– Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
– Önnur mál.

Fyrir hefðbundin aðalfundarstörf mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum flytja erindi sem hún nefnir „Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum“.

Í kynningu segir:

Við fornleifauppgröft á fornum íslenskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorskbein. Í mörgum tilfellum eru elstu mannvistarlög verstöðvanna aldursgreind til fyrstu alda eftir landnám. Á síðustu fimm árum hafa sérfræðingar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna, stundað þverfræðilegar rannsóknir á þessum beinum og öðrum fornleifafræðilegum efnivið frá verstöðvunum. Markmið rannsóknanna er að kortleggja breytileika í þorskstofninum og reyna að meta hvort loftslagsbreytingar og/eða veiðiálag hafi hvatað mögulegar breytingar á þorskinum á sögulegum tíma. Líffræðilegar rannsóknir á fornleifafræðilegum efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma.

Í þessum fyrirlestri mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir draga saman þær vistfræðilegu niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr verkefninu, t.d. greiningar á erfðasamsetningu, metla á fæðuvist með stöðugum efnasamsætum og rannsóknir á þorskkvörnum til að meta aldur, vöxt og tíðni vistgerða, þ.e. far- og staðbundinna þorska. Niðurstöðurnar benda til þess að breytingar hafi orðið á vistfræðilegum þáttum þorskstofnsins á tveimur tímabilum, annarsvegar á „litlu ísöld“, en það var líka tímabil mikillar aukningar í veiðiálagi, og í nútíma. Að lokum mun Guðbjörg Ásta setja niðurstöður um fornvistfræði þorsksins í  samhengi við þorskveiðar Íslendinga, þróun verstöðva og upphaf fiskveiðisamfélagsins.