Fræðsluganga í Hrútagjá

Mánudaginn 20. maí stendur Hið Íslenska Náttúrufræðifélag fyrir fræðslugöngu inn í Reykjanesfólkvang. Farið verður að Hrútagjá sem er nyrst í fólkvanginum, rétt sunnan við Fjallið eina. Þarna er stórkostlegt landslag og upplifunin er eins og að vera á hálendinu. Áherslan verður á jarðfræði staðarins og mun Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, leiða gönguna. Í för verða líka líffræðingar, m.a. Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur. Við bjóðum upp á það að hittast kl. 18.30 á bílaplani Fjarðarkaups þar sem við getum sameinast í bíla og orðið samferða, en aðeins tekur um 15 mín að keyra að staðnum. Þeir sem rata að Hrútagjá og velja að fara sjálfir hitta okkur þar kl. 19. (Afleggjarinn að Vígdísarvöllum er tekinn og keyrt í ca 1 km að skilti sem á stendur Hrútagjá.). Klæðið ykkur eftir veðri og verið í góðum gönguskóm. Gangan er ekki erfið. Miðað er við að hún taki um 2 klst. Gott að hafa heitt á brúsa með sér. Ferðin er ókeypis.