Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðsla

Velheppnuð haustlitaferð

Fyrr í september efndi HÍN til ferðar á Þingvelli í fallegu haustveðri og var komið víða við. Fyrst var litið á urriða á göngu þeirra upp Öxará, en svo var farið að Davíðsgjá að borða nesti við bláma gjárinnar og skoða fléttur. Síðan skoðuðum við Vellankötlu og tvö sýni af marflónum sem eru í vatnakerfi bergsins (takk Náttúruminjasafn Íslands) áður en við fórum í Vatnskot að drekka te úr laufum af sigurskúfi og hlusta á sögur um Símon Pétursson, síðasta bóndann í Vatnskoti. Rúsínan í pylsuendanum var svo skógarganga á Veiðimannagötu í átt að Skógarkoti sem lauk í Hallshelli (einnig þekktur sem Ásgeirshellir og Skógarkotshellir). Hellirinn sem liggur inn af innganginum er 54 metra langur, en tveir aðrir ranar liggja frá honum og þetta er því hið myndarlegasta kerfi. Hópurinn fylltist svo þakklæti yfir góðviðri dagsins þegar við gengum til baka frá hellinum í úrhelli. 

Við þökkum gestum kærlega fyrir samveruna og hlökkum til fleiri stunda saman.

Haustlitaferð á Þingvelli

Hið íslenska náttúrufræðifélag efnir til haustlitaferðar á Þingvelli 17. september. Ferðin verður undir handleiðslu Jóhannesar Bjarka Urbancic og áherslan verður á náttúruskoðun frekar en langar göngur.

Við munum hittast á bílastæðinu við Krónuna á Bíldshöfða klukkan 10:30 og sameinast þar í bíla. Þau sem vilja mæta beint geta hitt okkur við þjónustumiðstöðina á Leirum á Þingvöllum (norðan vatns, við Uxarhryggjaleið, ekki við Almannagjá) um klukkan 11:30.

Við stefnum á þriggja tíma samveru á Þingvöllum og komum með eigið nesti, en högum auðvitað seglum eftir vindi og úrkomu.

Þjónustumiðstöð:
https://goo.gl/maps/sRZAqchCpq4ph5f1A

Með von um að sjá ykkur sem flest,
Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags

Fræðsluerindi: Áhrif matvælaframleiðslu á líffræðilegan fjölbreytileika

Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur (MSc) hjá Eflu fjallar um umhverfisáhrif matvælaframleiðslu í víðu samhengi.

Landbúnaður hefur haft mikil áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og lífmassa lífvera á jörðinni. Matvælaframleiðsla er talin valda losun á fjórðungi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. 


Í lok erindisins verður kynnt Matarspor, hugbúnaður sem stuðlar að vitundarvakningu um loftslagsáhrif matar.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en erindinu verður jafnframt streymt.

Hér má finna streymi á erindið.

Hér má finna hlekk á viðburðinn.

Hér má finna glærur Sigurðar frá erindinu á PDF formati.

Heimsókn á aðventu

Þann 13. desember 2022 klukkan 17:00 mun Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands bjóða félögum og gestum þeirra að heimsækja nýtt sýningarhúsnæði Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi.
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ, mun taka á móti okkur og segja frá framtíðarhúsakynnum safnsins og HÍN býður upp á aðventuglögg og smákökur.

Hlökkum til að sjá ykkur, kæru félagar!