Út er komið 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarits Náttúruminjasafns Íslands. Að venju er í tímaritinu fjölbreytt og spennandi efni um rannsóknir á náttúrufari á Íslandi en einnig er fjallað um nýjar áskoranir sem hið Hið íslenska náttúrufræðifélag og tímaritið sjálft standa frammi fyrir á 130 ára og 90 ára starfsafmælum.
Hátterni hesta í haga nefnist forsíðugrein tímaritsins að þessu sinni. Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hér eru teknar saman niðurstöður rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Rannsóknirnar náðu yfir 15 ára tímabil og fóru fram á 11 stöðum á landinu. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru. Minnst var árásarhneigðin þar sem stóðhestur varði hóp hryssna og afkvæmi þeirra en hún var einnig lítil í hópum þar sem var fjöldi ungra folalda og samsetning hópsins var stöðug. Hestaeigendur geta nýtt sér þessar niðurstöður, m.a. með því að skapa aðstæður sem draga úr árásarhneigð hrossanna og minnka samkeppni um fóður, skjól og vatn. Þá skiptir máli að huga að hópsamsetningu og að halda henni sem stöðugastri. Höfundar eru Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra M. Granquist.
50 ár frá hruni síldarinnar. Í lok sjöunda áratugar síðustu aldar leiddi ofveiði til hruns í þremur síldarstofnum við Ísland með alvarlegum efnahagslegum afleiðingum sem vel eru þekktar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norska síldin eða norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Hér er greint frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga veiðistofns á árunum 1962–2016 en hlutdeild vorgotssíldar í afla reyndist aðeins 1,4% að meðaltali á árunum 1970–2016. Niðurstöðurnar styðja eldri tilgátu um að vorgotssíldin muni ekki ná sér fyrr en norska síldin fer að ganga aftur á Íslandsmið en stofnarnir eru taldir skyldir og samgangur á milli þeirra. Höfundur er Guðmundur J. Óskarsson.
Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast við samspil vatns og flæðandi hrauns. Sveinahraun rann niður eftir gljúfrunum skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu. Hér er sett fram sú tilgáta að hraunið hafi runnið 5 km lengra til norðurs en áður var ætlað og myndað Hljóðakletta og Rauðhóla. Þar sem hraunið komst í tæri við vatn og vatnsósa set gætu hafa myndast gervigígar. Jökulsá hefur síðar hreinsað gjallið að mestu utan af gervigígunum, líklega í stórhlaupum, en leifar þeirra eru m.a. Hljóðaklettar og Rauðhólar.
Mófuglar er alþýðuheiti á hópi fugla sem flestir þekkja og eru áberandi í landslagi á Íslandi. Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, þeirra sem eru einkennisdýr í landvistkerfum hérlendis og eru af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta. Því er sérlega mikilvægt að fylgjast vel með viðgangi mófugla sem endurspeglar ástand vistkerfa og frjósemi þeirra. Hér er greint frá vöktun á mófuglum á varptíma í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Markmiðið er að fylgjast með breytingum í fjölda einstakra tegunda en einnig að kanna hvernig breytingar í fjölda ólíkra tegunda fylgjast að milli ára. Sjö tegundir vaðfugla og tvær tegundir spörfugla reyndust algengastar: tjaldur, lóuþræll, jaðrakan, hrossagaukur, stelkur, spói, heiðlóa, skógarþröstur og þúfutittlingur. Breytingar á þessu árabili voru óverulegar nema hvað skógarþresti virtist fjölga nokkuð. Höfundar eru Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson.
Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Helsta uppspretta ryks var áður uppfok moldar þar sem land blés upp en nú eru aðaluppspretturnar nokkrar afmarkaða fínkorna sandauðnir: Dyngjusandur, Mælifellssandur, Hagavatnsaurar, Mýrdalssandur, Skeiðarársandur og sandar beggja vegna ósa Markarfljóts og Kúðafljóts. Þaðan berst svifryk um allt land og mælist styrkur þess oft langt umfram heilsuverndarmörk, jafnvel í mikilli fjarlægð frá upprunastað. Rykið hefur áhrif á ýmsa loftslagsþætti, hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur Arnalds, Pavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.
Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn.