Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 24. febrúar 2020 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar heldur Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur erindi sem ber heitið “Ef gýs á Reykjanesskaga, hvar eru líklegustu upptakasvæðin?”. Dagskráin hefst kl. 20:00 með erindi Þóru Bjargar en aðalfundarstörf hefjast að því loknu kl. 20:45. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:
• Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
• Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
• Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
• Önnur mál.
Stjórn HÍN skipa nú eftirtaldir: Ester Rut Unnsteinsdóttir formaður, Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður, Margrét Hugadóttir ritari, Snæbjörn Guðmundsson gjaldkeri, Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir fræðslustjóri, Jóhann Þórsson félagsvörður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi.
Almennir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sem og formaður. Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna er nú á enda, ásamt kjörtímabili formanns og er nú kosið um þessi embætti. Þetta eru embætti Snæbjörns Guðmundssonar, Jóhann Þórssonar og Sveinborgar Hlífar Gunnarsdóttur. Ester Rut Unnsteinsdóttir gefur áfram kost á sér til formanns og Snæbjörn Guðmundsson til áframhaldandi setu í stjórn. Auk þeirra hafa Bryndís Marteinsdóttir og Margrét Hugadóttir eftir að láta af stjórnarmennsku.
Ágrip af erindi Þóru Bjargar Andrésdóttur
“Ísland er mjög eldvirkt, elgos eru tíð og er eldvirknin tengd stöðu landsins á flekaskilum og heitum reiti undir landinu. Langur tími getur þó liðið á milli eldgosa og því líklegt að afleiðingar þeirra séu ekki lengur í minni manna.
Eldgos í sumum eldfjallakerfum áttu sér stað fyrir tíma vöktunar og því hafa fyrirboðar þeirra eldgosa og eldgosin sjálf ekki verið rannsökuð með nútímatækni. Á Reykjanesskaga eru fimm virk eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni kemur í hrinum, en síðastu eldgosahrinu lauk í Reykjaneseldum 1210–1240.
Til þess að meta eldgosavá eldvirkra svæða er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um fyrri virkni á svæðinu og því er jarðfræðikortlagning fyrsta skrefið í hættumati. Greining á eldgosavá er sérstaklega mikilvæg á svæðum líkt og á Reykjanesskaga þar sem íbúafjöldi er mikill og mikilvægir innviðir tengja bæi um langa vegalengd. Mat á tjónnæmni Reykjanesskaga með áherslu á líklegustu svæðin þar sem eldgos gætu hafist, ásamt nákvæmara hættumati, var unnið fyrir Reykjanes, vestasta eldgosakerfi skagans sem getur ógnað Grindavík, Vogum og Keflavík ásamt innviði á svæðinu.”
You must be logged in to post a comment.